Velkomin í Vopna­fjörð

Vopnafjörður er allbreiður fjörður milli Bakkaflóa og Héraðsflóa.

Vopnafjörður byggðist strax við landnám Íslands, enda búsældarlegur fjörður með mikið undirlendi. Þrír eru taldir fyrstu landnámsmenn í Vopnafirði, Eyvindur Vopni (Vápni), Hróaldur bjólan og Lýtingur Ásbjarnarson.  Af aukanefni Eyvindar tók fjörðurinn og byggðin nafn.

Fyrir miðjum firði er tangi, Kolbeinstangi, þar sem Vopnafjarðarkauptún stendur. Norðan Kolbeinstanga er fjörðurinn Nýpsfjörður og inn af honum Nýpslón.

Mikill fjallgarður rís handan fjarðarins frá Tanganum séð. Krossavíkurfjöll eru þar mest áberandi en syðst rísa Smjörfjöll sem eru hæstu fjöll fjarðarins.
Vopnafjörður er einn af veðursælustu stöðum landsins, söguríkur, vinalegur og fagur fjörður sem gaman er að sækja heim. Fjörðurinn er stór og skiptist í þrjá dali. Selárdalur er þar nyrstur, þá Vesturárdalur og austast Hofsárdalur sem tengdur er við Vesturárdal með svokallaðri millidalaleið.

Íbúafjöldi í sveitarfélaginu er rétt um 660 manns.  Aðalatvinnugreinar svæðisins eru fiskveiðar og fiskverkun, iðnaður, þjónusta og landbúnaður. Vopnafjörður býður upp á mikla möguleika til afþreyingar og útivistar og er svæðið þekkt sem ein besta stangveiðiparadís landsins. Merktar gönguleiðar eru margar, fjölbreyttar og leiða á vit náttúruperla Vopnafjarðar.  Tíma þínum er einnig vel varið í að heimsækja þau söfn og sýningar sem Vopnafjörður hefur uppá að bjóða, eða skella þér í sund í undurfögru umhverfi á bökkum Selár.
Vopnafjarðarkauptún er vinalegur bær, bæjarstæðið fallegt og Vopnfirðingar góðir heim að sækja.

Kæru vinir, verið velkomin til Vopnafjarðar.