Íþróttasvæðið er í Holtunum, efstu byggðum bæjarins. Á svæðinu eru grasvellir, vallarhús, strandblakvöllur, frisbígolfvöllur og ærslabelgur.
Á íþróttasvæðinu eru tveir grasvellir, frisbígolfvöllur, strandblakvöllur og ærslabelgur. Grasvellirnir tveir eru notaðir yfir sumartímann af Ungmennafélaginu Einherja; aðallega til fótboltaiðkunar en einnig undir frjálsar íþróttir. Við vellina standa tvö hús; gamla og nýja vallarhúsið.
Fótboltavellir#fotboltavellir
Tveir stórir grasvellir eru á íþróttavæðinu. Á þeim stendur Ungmennafélagið Einherji fyrir æfingum og keppni á sumrin. Mest eru vellirnir notaðir undir fótboltaiðkun en nokkrum sinnum á sumri eru þar haldin námskeið í frjálsum íþróttum.
Eldri völlurinn er á neðri hluta svæðisins og var áður aðalvöllur Vopnafjarðar og Einherja. Á efri hluta svæðisins er völlur sem tekinn var í notkun árið 2014. Sá völlur var áður malarvöllur en sumarið 2013 var völlurinn tyrfður af félagsmönnum Einherja. Þjónar sá völlur nú sem aðalvöllur félagsins en sá gamli er notaður sem æfingasvæði.
Vallarhús#vallarhus
Nýtt vallarhús var tekið í notkun sumarið 2020. Í húsinu eru tveir rúmgóðir búningsklefar, klefar fyrir dómara, samkomusalur og salerni fyrir gesti. Gamla vallarhúsið stendur rétt innan við hið nýja en það þjónaði sem sem flugskýli við Vopnafjarðarflugvöll áður en það var flutt á íþróttasvæðið í lok níunda áratugarins.
Strandblakvöllur#strandblakvollur
Sumarið 2020 var strandblakvöllur tekinn í notkun á íþróttasvæðinu. Völlurinn er utan við gamla grasvöllinn, neðan við ærslabelg. Um er að ræða löglegan strandblakvöll sem býður upp á enn einn möguleikann til íþróttaiðkunar á Vopnafirði.
Ærslabelgur#aerslabelgur
Utan við gamla grasvöllinn, við hlið strandblakvallar, er ærslabelgur. Belgurinn er í hefðbundinni stærð og opinn almenningi allt sumarið á milli klukkan 10 og 22.
- Fara þarf úr skóm áður en farið er á belginn
- Ekki er leyfilegt að hoppa með gleraugu
- Ekki er leyfilegt að hoppa með oddhvassa hluti
- Ekki er leyfilegt að hoppa í rigningu
- Ekki er leyfilegt að borða á belgnum
Á ærslabelgnum hoppa allir á eigin ábyrgð!
Frisbígolfvöllur#frisbigolfvollur
Sumarið 2021 var frisbígolfvöllur tekinn í notkun við íþróttasvæðið. Frisbígolf hefur notið vaxandi vinsælda undanfarin ár.
Frisbýgolfvöllur | pdf / 1 mb |