Í Vopnafirði eru margar skemmtilegar gönguleiðir og náttúruperlur að heimsækja. Allir ættu að geta fundið sér gönguleið við hæfi. Fjöruferðir, fjallgöngur, gamlar þjóðleiðir eða bæjarrölt.
Á milli dala#a-milli-dala
Gönguleið sem liggur frá Síreksstöðum í Sunnudal yfir í Hofsárdal. Komið er niður við Þorbrandsstaði og því kjörið að ganga aðeins lengra og enda ferðina í kaffi og kökum í Hjáleigunni við Minjasafnið á Bustarfelli.
Mikið er um fuglalíf á hálsinum og berjaland gott. Leiðin liggur uppávið og tekur aðeins í.
Deildarfell#deildarfell
Gönguleið sem liggur frá Hofsárdal yfir í Vesturárdal. Mjög gróðursæl leið og efst uppi á hálsinum er mikið og gott útsýni yfir bæði Hofsárdal og Vesturárdal.
Á hálsinum er Krummatjörn og í kringum hana er mikið fuglalíf. M.a. hefur Óðinshani dvalið þar undarfarin sumur. Leiðin liggur uppávið og tekur aðeins í.
Fuglabjargarnes#fuglabjargarnes
Leiðin liggur út með strönd Vopnafjarðar, norðan megin, í gönguferð um Fuglabjargarnes.
Bifreiðastæði er við Fuglabjargará og þaðan er gengið niður á nesið. Fuglabjargarnesið er á Náttúruminjaskrá Íslands vegna fagurrar og fjölbreyttrar strandar og mikils fuglalífs. Gengið er í fjörunni niður á nesið þar sem taka við þverhnípt björg beint niður í sjó, steindrangar sem gnæfa upp úr sjónum, gróðursæl víðátta og víðsýni yfir opið hafið.
Gljúfursá og Drangsnes#gljufursa-og-drangsnes
Svæðið er neðan við þjóðveginn sunnanmegin í firðinum. Gljúfursárfoss fellur fram í litfögru gljúfri rétt fyrir neðan bílastæðið. Þaðan er svo merkt gönguleið niður með Gljúfursánni, niður að sjó, um Drangsnes.
Að ganga meðfram þverhníptum klettunum er mikil upplifun og lætur fáa ósnortna. Gönguleiðin nær að Krummsholti. Þar eru vel sjáanlegar ævafornar tóftir, frá víkingaöld að því að talið er. Þar á Þorsteinn uxafótur að hafa búið. Þegar maður virðir fyrir sér þessar mannvistarleifar læðist að manni sú ósk að jörðin gæti talað og flutt okkur sögur forfeðranna.
Handan fjarðarins má sjá kauptún Vopnfjarðar sem stendur á tanga sem sagar út í fjörðinn. Tanginn er kallaður Kolbeinstangi.
Áin Gljúfursá var á fyrri tíð mikill farartálmi þegar ferðast þurfti austur fyrir Hellisheiði eystri. Mörg slys urðu þegar fólk var að reyna að þvera hana fótgangandi eða á hestum. Ef gengið er frá bílastæði upp með ánni er komið að gömlu brúnni yfir Gljúfursá. Þar má sjá hleðslur frá fyrstu brúnni sem var byggð yfir ána, rétt um aldamótin 1900 og þótti þá mikið mannvirki.
Sagt er að fyrsta brúin yfir ána hafi verið byggð í kjölfar banaslyss sem þar átti sér stað þegar maður á hesti freistaði þess að komast yfir ána að vetri til.
Heiðarbýlin#heidarbylin
Nú geta íbúar og gestir Vopnafjarðar notið göngu í ósnortinni náttúru heiðanna ofan Vopnafjarðar og heimsótt gömlu heiðarbýlin um leið, kynnt sér sögu þeirra og jafnvel sett sig í spor forfeðranna.
Á 19. öld og fram á þá 20. byggðust fjölmörg býli í Jökuldalsheiði og nágrenni. Fátækir bændur neyddust til að leita jarðnæðis upp til fjalla eftir að þröngt varð í sveitum á láglendi.
Byggðin í heiðinni stóð í rúma öld, frá 1841 til 1946. Þegar mest var bjuggu á heiðunum ofan Vopnafjarðar og Jökuldals vel á annað hundrað manns. Býlin í Vopnafjarðar- og Jökuldalsheiði urðu alls 16 og voru reist á árunum 1841-1862.
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Kaupvangur menningar- og fræðasetur Vopnfirðinga hafa sameinast um að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu á Jökuldalsheiðinni og heiðunum þar í kring. Gaman er að ganga á milli heiðarbýlanna. Hjá hverju býli er hólkur, sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, gestabók og stimpil.
Kort til að safna stimplum er til sölu í Sænautaseli, á Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Þar er einnig hægt að fá ókeypis leiðarvísi og bækling um býlin í heiðunum.
Veitt er viðurkenning þeim, sem skila inn korti með 10 stimplum og lenda þeir í potti, sem dregið er úr í september ár hvert. Veglegir vinningar.
Vinsamlegast skilið stimpilkortum á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, að Tjarnarási 8, á Egilsstaðastofu við tjaldstæðið á Egilsstöðum, eða á skrifstofu Vopnafjarðarhrepps í síðasta lagi 15.sept. ár hvert.
Leiðarvísirinn hefur einnig verið prentaður á ensku og var m.a. sendur í Íslendingabyggðir í Kanada, því margir ábúendur á Heiðarbýlanna fluttu til Vesturheims.
Hlíðarendi#hlidarendi
Gönguleiðin hefst við vegamótin þar sem keyrt er inn í kauptún Vopnafjarðar, norðan megin. Gengið er í gegnum skógrækt sem vopnfirskt skógræktarfólk hefur staðið fyrir síðustu áratugi og hefur nú lagt þessa frábæru gönguleið um svæðið. Leiðin liggur framhjá gömlu kotbýli sem kallað var Hlíðarendi og eru rústir bæjarins enn vel sýnilegar. Gönguleiðin er auðveld og hentar vel flestum.
Nokkrir bekkir eru á leiðinni þar sem hægt er að hvíla sig og njóta umhverfisins. Leiðin liggur niður að Staumseyri við Nýpslón. Fuglalíf á Lónunum er einstakt og auðvelt að gleyma sér við að fylgjast með náttúrulífinu.
Hraunalína#hraunalina
Um Hraunin ofan kauptúnsins liggja göngustígar sem ættu að vera við flestra hæfi. Leiðin er vinsæl meðal hlaupara og tilvalin til eftirmiðdagsgöngu með útsýni yfir kauptúnið og fjörðinn. Lagt er af stað frá slökkvistöð Vopnafjarðar, sjá nánar hér til hliðar. Gönguleiðin er gróðursæl og nokkrir bekkir er staðsettir á skjólgóðum stöðum svo göngufólk geti hvílt lúin bein.
Hraunfell#hraunfell
Hraunfell er eyðibýli í Sunnudal, inn af Hofsárdal. Saga þessa býlis er mikil og merk. Búskap var hætt á jörðinni rétt um miðja síðustu öld. Árið á undan hafði verið byggt nýtt steinsteypt fjós. Því miður komu aldrei skepnur þangað inn þar sem vorið eftir bygginguna var svo hart að ábúendur sáu sér þann kost vænstan að bregða búi.
Það tekur um þrjár klukkustundir að ganga frá Síreksstöðum að Hraunfelli. Leiðin er frekar auðfarin en þó mikið gengið í móum og þúfum. Mikið er af fallegum íslenskum blómum að sjá á leiðinni og ekki ætti fuglakvakið, friðurinn og hreint loftið að skemma upplifunina. Gengið er að hluta eftir bökkum Sunnudalsár. Gilin eru afskaplega falleg, litskrúðug og hver veit nema sjá megi einstaka laxveiðimann á bökkum árinnar að renna fyrir lax.
Krossavíkurfjall#krossavikurfjall
Krossavíkufjall er tæplega 1100 metra hátt fjall handan Vopnafjarðar, tilkomumikið og formfagurt. Upp á fjallið er merkt gönguleið en fjallgarðurinn í heild sinni er gjarnan kallaður Krossavíkurfjöll. Af fjallinu er útsýnið stórkostlegt og sér vel til allra átta og gangan vel á sig leggjandi fyrir það.
Gönguleiðin á fjallið hefst við þjóðveginn við Grjótá, milli bæjarins Krossavíkur og útsýnisstaðarins við Gljúfursá. Gönguleiðin er stikuð en er mjög erfið, brött og skriður sem ganga þarf í. Leiðin er ekki löng en tekur vel í. Einungis fyrir vant göngufólk. Efst uppi á fjallinu er varða. Í vörðunni má finna gestabók sem gestir fjallsins eru beðnir um að skrifa í.
Lónin#lonin
Lónin eru norðan megin við Vopnafjarðarkauptún og eru friðlýst vegna mikils dýralífs við sérstæð skilyrði. Fundist hafa yfir 40 tegundir smádýra í lónunum auk fiska og fugla. Skemmtilegt og fallegt er að ganga í fjöruborði Lónanna og fuglalíf er þar mjög mikið.
Á útsýnisstaðnum eru skilti sem kynna staðarháttu fyrir þeim sem þau skoða og segja frá áhugaverðum hlutum um Vopnafjörð.
Sandvík#sandvik
Sandvík er mikil og svört sandströnd innst í firðinum. Ströndin er fjölskyldupardís, gerð af náttúrunnar hendi. Þar má tína skeljar, fá sér göngutúr, skoða fuglana, byggja sér sandkastala eða hvað sem hugurinn girnist. Fyrir miðri ströndinni strandaði flutningaskipið Mávurinn 2. október 1981. Mannbjörg varð en allt til ársins 2017 mátti sjá glitta í skipið upp úr hafinu.
Aðgengi að Sandvík hefst við vegslóða sem liggur niður að víkinni innan við golfvöllinn. Við hvetjum alla til að fara mjög varlega í fjörunni. Sjórinn getur verið hættulegur og börn ættu ekki að vera eftirlitslaus á þessum stað. Þá á Hofsá það til að flæða yfir sandinn á vorin. Þar af leiðandi gætu myndast kviksyndi á sandinum.
Skjólfjörur og Ljósastapi#skjolfjorur-og-ljosastapi
Skjólfjörur eru neðan við þjóðveginn sunnanmegin í firðinum. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjörurnar. Þar er stórfenglegt útsýni yfir opið Atlantshafið og hver veit nema hvalur blási áhorfendum til skemmtunar. Litadýrð fjörusteinanna gleður augað og rekaviður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þá ægikrafta sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjörunni.
Eitt af einkennum Vopnafjarðar eru ótrúlegir klettadrangar sem taka á sig ýmsar kynjamyndir. Ljósastapi er steindrangur sem stendur í sjónum rétt undan Skjólfjara. Lögun stapans minnir óneitanlega á fíl og gengur Ljósastapi oft undir gælunafninu „Fíllinn“ meðal Vopnfirðinga.
Í landinu utan við Skjólfjörur má sjá fjallið Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og er þar elsta megineldstöð á Austurlandi. Í þeim fjallabálki má finna litfagurt líparít sem svo sannarlega setur svip sinn á umhverfið. Merkt gönguleið er niður í Þerribjörg, austanmegin í Hellisheiði eystri, þar sem líparítið skartar sínu fegursta.
Valsstaðir#valsstadir
Gönguleið sem liggur frá Hofsárdal yfir í Vesturárdal. Gönguleiðin hefst u.þ.b. 5 km fyrir innan þorpið, milli Vatnsdalsgerðis og Ásbrandsstaða. Á göngunni er m.a. gengið framhjá eyðibýlinu Valsstöðum, sem seinna voru beitarhús frá Ásbrandsstöðum.
Fallegt útsýni sem lætur fáa ósnortna er af hálsinum t.d. yfir fjörðinn og Lónin. Leiðin liggur uppávið og tekur aðeins í.
Vappað um Vopnafjörð#vappad-um-vopnafjord
Ferðamálasamtök Vopnafjarðar stóðu fyrir því að teknar væru saman heimildir um sögu Vopnafjarðar sem miðla mætti til íbúa og gesta um leið og gengið er um þorpið. Nú er þetta verkefni orðið að veruleika og hafa verið gerð 15 skilti, víðsvegar um þorpið, sem segja lítillega frá Vopnafirði.
Bæklingur um gönguleiðina er fáanlegur á helstu ferðamannastöðum Vopnafjarðar. Einnig má fá leiðsögn um leiðina í gegnum snjallsíma með því að hlaða niður appinu Wapp
Virkisvík#virkisvik
Virkisvíkin er undurfagur staður sunnanmegin í firðinum. Litadýrð setlaga víkurinnar blasir þar við, ásamt stuðlabergi og fossi sem steypist fram af þverhníptum björgunum í sjó fram. Farið varlega á bjargbrúnunum.
Elsta þekkta berg ofansjávar á Íslandi er á Vestfjörðum og Austfjörðum. Það er 15-16 milljóna ára og því frá míósentíma á tertíer. Tertíertímabilið hófst fyrir 65 milljónum ára en lauk fyrir 1,8 milljónum ára. Jarðlagastaflinn frá tertíer er myndaður úr hraunlagasyrpum með stöku setlögum á milli. Slík setlög, í þykkari kantinum, hafa löngum verið viðfangsefni rannsókna, enda finnast oft í þeim gróður- eða dýraleifar sem geta gefið töluverðar upplýsingar um loftslag á þeim tíma sem setið settist. Í Vopnafirði og Hofsárdal inn af Vopnafirði á Austfjörðum eru tvenn slík allþykk setlög. Annað er í Virkisvík í sunnanverðum firðinum en hitt er í Bustarfelli í Hofsárdal.
Þverárgil#thverargil
Þverárgil er einstaklega fallegt þar sem sjá má litríkt líparít, súrt innskotsberg frá gamalli megineldstöð sem stingur skemmtilega í stúf við annars dökkt basískt umhverfi Smjörfjallanna fyrir ofan gilið. Fuglalíf á þessu svæði er mikið sérstaklega íslenskir mófuglar. Úsýnið er stórfenglegt yfir Hofsárdalinn og á haf út.
Gönguleiðin er um tveggja klukkustunda löng og liggur aðeins uppá við.