Göngu­leiðir

Í Vopna­firði eru margar skemmti­legar göngu­leiðir og nátt­úruperlur að heim­sækja. Allir ættu að geta fundið sér göngu­leið við hæfi. Fjöru­ferðir, fjall­göngur, gamlar þjóð­leiðir eða bæjarrölt. 

Á milli dala#a-milli-dala

Á korti

Göngu­leið sem liggur frá Síreks­stöðum í Sunnudal yfir í Hofs­árdal.  Komið er niður við Þorbrands­staði og því kjörið að ganga aðeins lengra og enda ferðina í kaffi og kökum í Hjáleig­unni við Minja­safnið á Bust­ar­felli.

Mikið er um fuglalíf á háls­inum og berja­land gott. Leiðin liggur uppávið og tekur aðeins í.

Deildarfell#deildarfell

Á korti

Göngu­leið sem liggur frá Hofs­árdal yfir í Vesturárdal.  Mjög gróð­ursæl leið og efst uppi á háls­inum er mikið og gott útsýni yfir bæði Hofs­árdal og Vesturárdal.

Á háls­inum er Krumma­tjörn og í kringum hana er mikið fuglalíf.  M.a. hefur Óðins­hani dvalið þar undarfarin sumur. Leiðin liggur uppávið og tekur aðeins í.

Fuglabjargarnes#fuglabjargarnes

Á korti

Leiðin liggur út með strönd Vopna­fjarðar, norðan megin, í göngu­ferð um Fugla­bjarg­arnes.

Bifreiða­stæði er við Fugla­bjargará og þaðan er gengið niður á nesið. Fugla­bjarg­ar­nesið er á Nátt­úru­m­inja­skrá Íslands vegna fagurrar og fjöl­breyttrar strandar og mikils fugla­lífs. Gengið er í fjör­unni niður á nesið þar sem taka við þver­hnípt björg beint niður í sjó, steindrangar sem gnæfa upp úr sjónum, gróð­ursæl víðátta og víðsýni yfir opið hafið.

Gljúfursá og Drangsnes#gljufursa-og-drangsnes

Á korti

Svæðið er neðan við þjóð­veginn sunn­an­megin í firð­inum. Gljúf­ursár­foss fellur fram í litfögru gljúfri rétt fyrir neðan bíla­stæðið. Þaðan er svo merkt göngu­leið niður með Gljúf­ursánni, niður að sjó, um Drangsnes.

Að ganga meðfram þver­hníptum klett­unum er mikil upplifun og lætur fáa ósnortna. Göngu­leiðin nær að Krumms­holti. Þar eru vel sjáan­legar ævafornar tóftir, frá víkingaöld að því að talið er. Þar á Þorsteinn uxafótur að hafa búið. Þegar maður virðir fyrir sér þessar mann­vist­ar­leifar læðist að manni sú ósk að jörðin gæti talað og flutt okkur sögur forfeðr­anna.

Handan fjarð­arins má sjá kauptún Vopn­fjarðar sem stendur á tanga sem sagar út í fjörðinn. Tanginn er kall­aður Kolbein­stangi.

Áin Gljúf­ursá var á fyrri tíð mikill farar­tálmi þegar ferðast þurfti austur fyrir Hell­is­heiði eystri. Mörg slys urðu þegar fólk var að reyna að þvera hana fótgang­andi eða á hestum. Ef gengið er frá bíla­stæði upp með ánni er komið að gömlu brúnni yfir Gljúf­ursá. Þar má sjá hleðslur frá fyrstu brúnni sem var byggð yfir ána, rétt um alda­mótin 1900 og þótti þá mikið mann­virki.

Sagt er að fyrsta brúin yfir ána hafi verið byggð í kjölfar bana­slyss sem þar átti sér stað þegar maður á hesti freistaði þess að komast yfir ána að vetri til.

Heiðarbýlin#heidarbylin

Nú geta íbúar og gestir Vopna­fjarðar notið göngu í ósnort­inni náttúru heið­anna ofan Vopna­fjarðar og heim­sótt gömlu heið­ar­býlin um leið, kynnt sér sögu þeirra og jafnvel sett sig í spor forfeðr­anna.

Á 19. öld og fram á þá 20. byggðust fjöl­mörg býli í Jökul­dals­heiði og nágrenni. Fátækir bændur neyddust til að leita jarð­næðis upp til fjalla eftir að þröngt varð í sveitum á láglendi.

Byggðin í heið­inni stóð í rúma öld, frá 1841 til 1946. Þegar mest var bjuggu á heið­unum ofan Vopna­fjarðar og Jökul­dals vel á annað hundrað manns. Býlin í Vopna­fjarðar- og Jökul­dals­heiði urðu alls 16 og voru reist á árunum 1841-1862.

Ferða­félag Fljóts­dals­héraðs og Kaup­vangur menn­ingar- og fræða­setur Vopn­firð­inga hafa sameinast um að byggja upp menn­ing­ar­tengda ferða­þjón­ustu á Jökul­dals­heið­inni og heið­unum þar í kring.  Gaman er að ganga á milli heið­ar­býl­anna. Hjá hverju býli er hólkur, sem inni­heldur upplýs­ingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, gestabók og stimpil.

Kort til að safna stimplum er til sölu í Sænauta­seli, á Upplýs­inga­mið­stöð­inni á Egils­stöðum og á skrif­stofu Ferða­fé­lags Fljóts­dals­héraðs, Tjarn­arási 8, Egils­stöðum. Þar er einnig hægt að fá ókeypis leið­ar­vísi og bækling um býlin í heið­unum.

Veitt er viður­kenning þeim, sem skila inn korti með 10 stimplum og lenda þeir í potti, sem dregið er úr í sept­ember ár hvert.  Veglegir vinn­ingar.

Vinsam­legast skilið stimp­il­kortum á skrif­stofu Ferða­fé­lags Fljóts­dals­héraðs,  að Tjarn­arási 8,  á Egils­staða­stofu við tjald­stæðið á Egils­stöðum, eða á skrif­stofu Vopna­fjarð­ar­hrepps í síðasta lagi 15.sept. ár hvert.

Leið­ar­vís­irinn hefur einnig verið prent­aður á ensku og var m.a. sendur í Íslend­inga­byggðir í Kanada, því margir ábúendur á Heið­ar­býl­anna fluttu til Vest­ur­heims.

Hlíðarendi#hlidarendi

Á korti

Göngu­leiðin hefst við vega­mótin þar sem keyrt er inn í kauptún Vopna­fjarðar, norðan megin. Gengið er í gegnum skóg­rækt sem vopn­firskt skóg­ræktar­fólk hefur staðið fyrir síðustu áratugi og hefur nú lagt þessa frábæru göngu­leið um svæðið.  Leiðin liggur framhjá gömlu kotbýli sem kallað var Hlíðar­endi og eru rústir bæjarins enn vel sýni­legar.  Göngu­leiðin er auðveld og hentar vel flestum.

Nokkrir bekkir eru á leið­inni þar sem hægt er að hvíla sig og njóta umhverf­isins. Leiðin liggur niður að Staumseyri við Nýpslón. Fuglalíf á Lónunum er einstakt og auðvelt að gleyma sér við að fylgjast með nátt­úru­lífinu.

Hraunalína#hraunalina

Á korti

Um Hraunin ofan kaup­túnsins liggja göngu­stígar sem ættu að vera við flestra hæfi. Leiðin er vinsæl meðal hlaupara og tilvalin til eftir­mið­dags­göngu með útsýni yfir kaup­túnið og fjörðinn. Lagt er af stað frá slökkvi­stöð Vopna­fjarðar, sjá nánar hér til hliðar. Göngu­leiðin er gróð­ursæl og nokkrir bekkir er stað­settir á skjól­góðum stöðum svo göngu­fólk geti hvílt lúin bein.

Hraunfell#hraunfell

Á korti

Hraun­fell er eyði­býli í Sunnudal, inn af Hofs­árdal.  Saga þessa býlis er mikil og merk. Búskap var hætt á jörð­inni rétt um miðja síðustu öld.  Árið á undan hafði verið byggt nýtt stein­steypt fjós.  Því miður komu aldrei skepnur þangað inn þar sem vorið eftir bygg­inguna var svo hart að ábúendur sáu sér þann kost vænstan að bregða búi.

Það tekur um þrjár klukku­stundir að ganga frá Síreks­stöðum að Hraun­felli.  Leiðin er frekar auðfarin en þó mikið gengið í móum og þúfum.  Mikið er af fallegum íslenskum blómum að sjá á leið­inni og ekki ætti fugla­kvakið, frið­urinn og hreint loftið að skemma upplif­unina.  Gengið er að hluta eftir bökkum Sunnu­dalsár. Gilin eru afskap­lega falleg, litskrúðug og hver veit nema sjá megi einstaka laxveiðimann á bökkum árinnar að renna fyrir lax.

Krossavíkurfjall#krossavikurfjall

Á korti

Krossa­víku­fjall er tæplega 1100 metra hátt fjall handan Vopna­fjarðar, tilkomu­mikið og form­fagurt.  Upp á fjallið er merkt göngu­leið en fjall­garð­urinn í heild sinni er gjarnan kall­aður Krossa­vík­ur­fjöll. Af fjallinu er útsýnið stór­kost­legt og sér vel til allra átta og gangan vel á sig leggj­andi fyrir það.

Göngu­leiðin á fjallið hefst við þjóð­veginn við Grjótá, milli bæjarins Krossa­víkur og útsýn­is­stað­arins við Gljúf­ursá. Göngu­leiðin er stikuð en er mjög erfið, brött og skriður sem ganga þarf í.  Leiðin er ekki löng en tekur vel í.  Einungis fyrir vant göngu­fólk.  Efst uppi á fjallinu er varða. Í vörð­unni má finna gestabók sem gestir fjallsins eru beðnir um að skrifa í.

Lónin#lonin

Á korti

Lónin eru norðan megin við Vopna­fjarð­ar­kauptún og eru frið­lýst vegna mikils dýra­lífs við sérstæð skil­yrði. Fundist hafa yfir 40 tegundir smádýra í lónunum auk fiska og fugla. Skemmti­legt og fallegt er að ganga í fjöru­borði Lónanna og fuglalíf er þar mjög mikið.

Á útsýn­is­staðnum eru skilti sem kynna stað­ar­háttu fyrir þeim sem þau skoða og segja frá áhuga­verðum hlutum um Vopna­fjörð.

Sandvík#sandvik

Á korti

Sandvík er mikil og svört sand­strönd innst í firð­inum. Ströndin er fjöl­skyldupardís, gerð af nátt­úr­unnar hendi. Þar má tína skeljar, fá sér göngutúr, skoða fuglana, byggja sér sand­kastala eða hvað sem hugurinn girnist. Fyrir miðri strönd­inni strandaði flutn­inga­skipið Mávurinn 2. október 1981. Mann­björg varð en allt til ársins 2017 mátti sjá glitta í skipið upp úr hafinu.

Aðgengi að Sandvík hefst við vegslóða sem liggur niður að víkinni innan við golf­völlinn. Við hvetjum alla til að fara mjög varlega í fjör­unni.  Sjórinn getur verið hættu­legur og börn ættu ekki að vera eftir­lits­laus á þessum stað. Þá á Hofsá það til að flæða yfir sandinn á vorin.  Þar af leið­andi gætu myndast kvik­syndi á sand­inum.

Skjólfjörur og Ljósastapi#skjolfjorur-og-ljosastapi

Á korti

Skjól­fjörur eru neðan við þjóð­veginn sunn­an­megin í firð­inum. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjör­urnar. Þar er stór­feng­legt útsýni yfir opið Atlants­hafið og hver veit nema hvalur blási áhorf­endum til skemmt­unar. Lita­dýrð fjöru­stein­anna gleður augað og reka­viður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þá ægikrafta sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjör­unni.

Eitt af einkennum Vopna­fjarðar eru ótrú­legir kletta­drangar sem taka á sig ýmsar kynja­myndir.  Ljós­astapi er steindrangur sem stendur í sjónum rétt undan Skjól­fjara.  Lögun stapans minnir óneit­an­lega á fíl og gengur Ljós­astapi oft undir gælu­nafninu „Fíllinn“ meðal Vopn­firð­inga.

Í landinu utan við Skjól­fjörur má sjá fjallið Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagra­dals­fjalla og er þar elsta megin­eld­stöð á Aust­ur­landi. Í þeim fjalla­bálki má finna litfagurt líparít sem svo sann­ar­lega setur svip sinn á umhverfið. Merkt göngu­leið er niður í Þerri­björg, aust­an­megin í Hell­is­heiði eystri, þar sem lípar­ítið skartar sínu fegursta.

Valsstaðir#valsstadir

Á korti

Göngu­leið sem liggur frá Hofs­árdal yfir í Vesturárdal.  Göngu­leiðin hefst u.þ.b. 5 km fyrir innan þorpið, milli Vatns­dals­gerðis og Ásbrands­staða.  Á göng­unni er m.a. gengið framhjá eyði­býlinu Vals­stöðum, sem seinna voru beit­arhús frá Ásbrands­stöðum.

Fallegt útsýni sem lætur fáa ósnortna er af háls­inum t.d.  yfir fjörðinn og Lónin. Leiðin liggur uppávið og tekur aðeins í.

Vappað um Vopnafjörð#vappad-um-vopnafjord

Ferða­mála­samtök Vopna­fjarðar stóðu fyrir því að teknar væru saman heim­ildir um sögu Vopna­fjarðar sem miðla mætti til íbúa og gesta um leið og gengið er um þorpið. Nú er þetta verk­efni orðið að veru­leika og hafa verið gerð 15 skilti, víðs­vegar um þorpið, sem segja lítil­lega frá Vopna­firði.

Bæklingur um göngu­leiðina er fáan­legur á helstu ferða­manna­stöðum Vopna­fjarðar. Einnig má fá leið­sögn um leiðina í gegnum snjallsíma með því að hlaða niður appinu Wapp

Virkisvík#virkisvik

Á korti

Virk­is­víkin er undurfagur staður sunn­an­megin í firð­inum. Lita­dýrð setlaga víkur­innar blasir þar við, ásamt stuðla­bergi og fossi sem steypist fram af þver­hníptum björg­unum í sjó fram. Farið varlega á bjarg­brún­unum.

Elsta þekkta berg ofan­sjávar á Íslandi er á Vest­fjörðum og Aust­fjörðum. Það er 15-16 milljóna ára og því frá míósentíma á tertíer. Tertíer­tíma­bilið hófst fyrir 65 millj­ónum ára en lauk fyrir 1,8 millj­ónum ára. Jarð­lag­astaflinn frá tertíer er mynd­aður úr hraun­lagasyrpum með stöku setlögum á milli. Slík setlög, í þykkari kant­inum, hafa löngum verið viðfangs­efni rann­sókna, enda finnast oft í þeim gróður- eða dýra­leifar sem geta gefið tölu­verðar upplýs­ingar um loftslag á þeim tíma sem setið settist. Í Vopna­firði og Hofs­árdal inn af Vopna­firði á Aust­fjörðum eru tvenn slík allþykk setlög. Annað er í Virk­isvík í sunn­an­verðum firð­inum en hitt er í Bust­ar­felli í Hofs­árdal.

Þverárgil#thverargil

Á korti

Þver­árgil er einstak­lega fallegt þar sem sjá má litríkt líparít, súrt innskots­berg frá gamalli megin­eld­stöð sem stingur skemmti­lega í stúf við  annars dökkt basískt umhverfi Smjör­fjall­anna fyrir ofan gilið. Fuglalíf á þessu svæði er mikið sérstak­lega íslenskir mófuglar. Úsýnið er stór­feng­legt yfir Hofs­ár­dalinn og á haf út.

Göngu­leiðin er um tveggja klukku­stunda löng og liggur aðeins uppá við.