Vopnafjarðarhreppur hefur nú sett sér nýjar frístundarreglur sem markmið hafa að skapa jákvætt, uppbyggilegt og öruggt umhverfi fyrir öll börn og ungmenni í sveitarfélaginu.
Reglurnar eru hluti af innleiðingu verkefnisins Barnvænt sveitarfélag, sem unnið er í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Með verkefninu skuldbindur sveitarfélagið sig til að styrkja réttindi barna og radda þeirra í öllum þáttum samfélagsins – ekki síst í frístundastarfi þar sem mörg börn verja stórum hluta frítíma síns.
Börn eiga rétt á að njóta frístunda með virðingu og vellíðan#born-eiga-rett-a-ad-njota-fristunda-med-virdingu-og-vellidan
Markmið reglnanna er að tryggja að öll börn geti stundað frístundir í andrúmslofti þar sem gleði, virðing, jafnrétti ríkir. Þær eru leiðbeinandi fyrir börn, foreldra, þjálfara, leiðbeinendur og aðra sem koma að skipulögðu frístundastarfi.
Frístundarreglurnar byggja á hugmyndafræði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og leggja áherslu á jákvæð samskipti, góða framkomu og þátttöku barna í eigin frístundastarfi. Börn eiga að fá að tjá sig, njóta verndar og upplifa sig örugg í öllu skipulögðu starfi sem þau taka þátt í.
Samvinna og samtal – grunnur að góðu starfi#samvinna-og-samtal-grunnur-ad-godu-starfi
Við gerð reglanna var haft samráð við þá sem starfa með börnum í sveitarfélaginu, og lögð áhersla á að skapa sameiginlegan skilning á mikilvægi góðra samskipta og jákvæðs andrúmslofts. Með þessu er lagður grunnur að öflugra og barnvænna samfélagi þar sem raddir barna fá að heyrast og þarfir þeirra eru í forgrunni.
Við hvetjum alla sem koma að frístundastarfi – foreldra, starfsfólk og börnin sjálf – til að kynna sér reglurnar og taka þátt í að skapa betra umhverfi fyrir börn á Vopnafirði.
Frístundareglur Vopnafjarðarhrepps#fristundareglur-vopnafjardarhrepps
Frístundareglur Vopnafjarðarhrepps | pdf / 172 kb |
