Aðventan á Vopna­firði

Sunnu­daginn 28.nóvember fögnum við fyrsta sunnu­degi í aðventu þetta árið.

Undan­farin ár hefur sú skemmti­lega hefð skapast að tendra ljósin á jóla­tréi Vopna­fjarð­ar­hrepps við hátíð­lega athöfn. Hefur þessi athöfn verið afar vel heppnað upphaf á aðvent­unni og mjög skemmtileg hefð.
Vegna samkomutak­markana verður ekki hefð­bundinn viðburður í kringum tendrun ljósa á jólatré miðbæj­arins í ár. Þess í stað verða ljósin kveikt á jóla­trénu að morgni föstu­dags 26.nóvember að viðstöddum leik­skóla­börnum frá Brekkubæ.

Á sunnudag hafa fram­taks­samir aðilar skipu­lagt aðventurölt í bænum og er tilvalið að rölta um fallega bæinn okkar, kíkja á jóla­tréð og versla í heima­byggð fyrir jólin. Þennan sama daga opna tvær sýningar í Kaup­vangi, Smáheimar íslenskra þjóð­sagna og leik­fanga­sýning heima­fólks, og er tilvalið að koma þar við og njóta þess að skoða þær.

Heyrst hefur einnig að jóla­sveinar verði á ferð­inni á milli kl. 15:00 og 16:30.

Við kveikjum einu kerti á, er gjarnan sungið á aðvent­unni. En hvers vegna tendrum við ljós á aðventu­krönsum í tilefni aðvent­unnar?

Siðurinn, að tendra ljós á aðventukr­ans­inum, er talinn eiga rætur sínar að rekja til þess hve börnum þótti erfitt að bíða eftir jólunum. Siðurinn hefur verið eign­aður þýskum presti, Johann Hinrich Wichern, sem tók eftir óþol­in­mæði þeirra barna sem hann var að kenna. Hann gerði því fyrsta aðventukr­ansinn árið 1839 til að auðvelda börn­unum biðina. Því mætti segja að aðventukr­ansinn sé forveri jóla­da­ga­tal­anna sem njóta mikilla vinsælda í dag.

Fyrsta kerti aðventukr­ansins heitir Spádómskertið og það er kertið sem við tendrum á sunnudag.
Annað kertið heitir Betlehemskertið, þriðja Hirða­kertið og það fjórða Engla­kertið.

Njótið aðventuröltsins og jóla­ljós­anna á sunnudag!

Endum þetta á fallegu ljóði um aðventuna eftir Hákon Aðal­steinsson.

Aðventa
Brátt nálgast sú helg­asta hátíð í bæ

með heilögu ljós­unum björtum.

Andi Guðs leggst yfir lönd yfir sæ

og leitar að friði í hjörtum.

 

En nú virðist fegurðin flúin á braut

frið­urinn spennu er hlaðinn.

Lífs­gæðakapp­hlaup og kaup­hall­ar­skraut

er komið til okkar í staðinn.

 

Þó vill hann oft gleymast, sem farveg oss fann

fæddur í jötunnar beði.

Við týnum úr hjartanu trúnni á hann

og tilefni jólanna gleði.

 

Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós

þá veitist þér andlegur styrkur.

Kveiktu svo örlítið aðventu­ljós,

þá eyðist þitt skamm­deg­is­myrkur.

 

Það ljós hefur tindrað aldir og ár

yljað um dali og voga.

Þó kertið sé lítið og kveik­urinn smár

mun kærleikur fylgja þeim loga.

 

Láttu svo kertið þitt lýsa um geim

loga í sérhverjum glugga.

Þá getur þú búið til bjartari heim

og bægt frá þér vonleys­is­skugga.

 

Hákon Aðal­steinsson
1997