Hafin er vinna í að setja á laggirnar Nýtingarmiðstöð á Vopnafirði – Vottað vinnslurými, sem hefur það hlutverk að bæta nýtingu og skapa verðmæti úr afurðum af sjó og landi, hliðarafurðum sem annars verða að úrgangi og glatvarma sem annars hverfur ónýttur til sjávar. Áhersla verður lögð á nýsköpun, þekkingaryfirfærslu og víðtækt samstarf.
Í undirbúningsstjórn eru fulltrúar frá Vopnafjarðarhrepp, BRIM, Austurbrú og Umhverfis-, orku og loftlagsráðuneyti, en einnig munu koma að verkefninu Eygló á austurlandi ásamt Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðueyti. Verið er að vinna að formlegri stofnun félagsins, en það mun verða byggt að hluta á verkefninu „Vopnfirska matargatið“ og vera með stjórn og verkefnastjórn sem munu vinna í samstarfi með verkefnastjóra Nýtingarmiðstöðvarinnar.
Á fundi undirbúningsstjórnar þann 20. september s.l. var samþykkt að ráða Rögnvald Þorgrímsson sem verkefnastjóra, en hann hóf störf þann 1. október s.l. Fyrstu verkefni eru að gera áætlanir um brýnustu endurbætur á húsnæði, kynna verkefnið fyrir væntanlegum samstarfsaðilum og sækja um styrki til frekari uppbyggingar. Nýtingarmiðstöð á Vopnafirði mun verða í afmörkuðu húsnæði á jarðhæð í fyrrverandi Sláturhúsi Vopnafjarðar og með skrifstofu- og kaffistofu á annari hæð en aðstaða í húsnæðinu er framlag BRIMS til verkefnisins.
Í lokaskýrslu Örnu Bjargar Bjarnardóttur sem gerði fýsileikakönnun um verkefnið segir meðal annars: „Nýtingarmiðstöð kemur til með að auka tækifæri til nýsköpunar, fjölga atvinnutækifærum, hækka menntunarstig, stuðla að sjálbærri þróun í víðum skilningi þess orðs. Nýtingarmiðstöðin mun þannig leggja lóð á vogaskálar við að skapa þekkingu til yfirfærslu á önnur svæði og efla þannig hringrásarhagkerfið langt út fyrir Vopnafjörð“
Gerðar eru miklar væntingar til uppbyggingar og reksturs á Nýtingarmiðstöð á Vopnafirði, en þetta er nýsköpunarverkefni sem hefur mikla möguleika til vaxtar og þróunar til bæði skamms tíma og lengri framtíðar.