Vesturfaramiðstöð Austurlands er staðsett í Kaupvangi.
Í garðinum framan við Kaupvang stendur minnisvarði um þá Vopnfirðinga sem fóru til Vesturheims. Línur úr ljóði Stephans G. Stephanssonar, Úr Íslendingadags ræðu, eru letraðar á steininn.
Vesturfarinn rekur Vesturfaramiðstöð Austurlands. Vesturfarinn er félag áhugasamra um að efla samband við afkomendur vesturfara sem fóru frá Austur- og Norðausturlandi, sérstaklega frá Vopnafirði og öðrum stöðum í Múlasýslum og Þistilfirði eftir Öskjugosið 1875.
Boðið er upp á ættfræðiþjónustu, farið aftur í tímann í leit að ættingjum og leitað tengingar við samtímann. Einnig er boðið upp á aðstoð við að undirbúa heimsókn til Íslands þar sem fólk getur hitt sína ættingja hér og komist á sínar ættarslóðir.
Vesturfarinn hefur unnið með áhugafélögum fyrir vestan og hefur fólk komið sérstaklega til Vopnafjarðar til að upplifa sína tengingu og taugar til þeirra bæja og staða sem þeirra fólk kom frá.
Áhugasamir aðilar eru hvattir til að heimsækja Vesturfarann og njóta þess sem félagið hefur upp á að bjóða. Ef þér hentar betur að heimsækja Vesturfarann utan hefðbundins opnunartíma má hafa samband við Cathy í síma 473 1200.