Vopna­fjarð­ar­hreppur hlýtur jafn­launa­vottun

Jafn­rétt­is­stofa hefur veitt Vopna­fjarð­ar­hreppi heimild til að nota jafn­launa­merkið. Í því felst að stað­fest er að Vopna­fjarð­ar­hreppur hafi fengið vottun á jafn­launa­kerfi sínu samkvæmt jafn­launastaðli ÍST 85:2012 og uppfylli skil­yrði stað­alsins.

Þar með hefur Jafn­rétt­is­stofa fengið stað­fest­ingu á því að launa­ákvarð­anir sveit­ar­fé­lagsins séu kerf­is­bundnar, að fyrir hendi sé jafn­launa­kerfi samkvæmt kröfum jafn­launastaðals og að reglu­bundið sé fylgst með því að starfs­fólk sem vinnur sömu eða jafn­verðmæt störf hafi sambærileg laun óháð kynferði. Í jafn­rétt­isáætlun Vopna­fjarð­ar­hrepps kemur fram að konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og skulu þau njóta sömu kjara er varða önnur starfs­kjör og rétt­indi.

Megin­markmið jafn­launa­vott­unar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafn­rétti kynj­anna á vinnu­markaði. Jafn­launa­vottun var lögfest í júní 2017 með lögum nr. 56/2017 sem fela í sér breyt­ingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Samkvæmt lögunum skal jafn­launa­vottun byggjast á jafn­launastaðl­inum.

Starfs­fólk Vopna­fjarð­ar­hrepps hefur unnið mikla og góða vinnu við að undirbúa sveit­ar­fé­lagið fyrir jafn­launa­vott­unina, en sveit­ar­fé­lagið naut liðsinnis Attentus – Mannauður og ráðgjöf við undir­búning og skipulag stjórn­un­ar­kerf­isins. BSI group (British Stand­ards Institution) fram­kvæmdi úttektir og vottaði jafn­launa­kerfi sveit­ar­fé­lagsins. Vinna við innleið­inguna hófst haustið 2019 og seinni úttekt fór fram 3. nóvember síðast­liðinn.