Síðastliðinn mánudag var 57,2 milljónum króna úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til 58 verkefna.
Styrkupphæðin skiptist á milli 29 menningarverkefna, 26 verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og loks fá þrjú verkefni stofn- og rekstrarstyrki. Alls bárust 100 umsóknir upp á 198 milljónir króna í sjóðinn að þessu sinni. Heildarkostnaður verkefna er um 550 milljónir króna.
„Engum dylst sá metnaður sem einkennir menningarstarf Austfirðinga. Fjölbreytnin, krafturinn og gæðin eru allt um kring og svo sannarlega til fyrirmyndar. Maður fær það einhvern vegin á tilfinninguna að það búi í raun miklu fleiri á Austurlandi miðað við alla þá virkni sem á sér stað í menningarlífi svæðisins,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Það er ánægjulegt að greina frá því að í þessari úthlutun voru fjögur vopnfirsk verkefni sem hlutu styrk:
- Valkyrja danslistarskóli – 1.400.000 kr.
- Vonarljós iðjuþjálfun – 1.000.000 kr.
- Safn um sögu landpósta í Vopnafirði – 300.000 kr.
- Ferðaþjónustan Síreksstöðum – 300.000 kr.
Við óskum styrkhöfum innilega til hamingju og óskum þeim góðs gengis!
