
Cathy Ann Josephson, ættfræðingur hér í Vopnafirði, var á nýársdag meðal þeirra 14 Íslendinga sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við athöfn á Bessastöðum. Cathy segir að orðan veiti henni hvatningu til að halda áfram við ættfræðina skv. austurfrett.is.
Cathy hefur í tæp 30 ár rakið saman ættir Íslendinga og Vestur-Íslendinga og þannig tengt fólk beggja vegna Atlantshafsins. Hún er sjálf uppalinn í Bandaríkjunum en af íslenskum ættum. Afi hennar fæddist á Hraunfelli í Sunnudal og amma hennar í Viðvík, milli Bakkafjarðar og Strandarhafnar. Hennar fólk var vopnfirskt og föðurætt afa hennar af Austurlandi. Cathy á því fullt af skyldfólki hér eystra, einkum á Vopnafirði.
Cathy kom fyrst til Vopnafjarðar ásamt fjölskyldunni árið 1994. Síðan kom hún aftur sex mánuðum síðar og hefur búið nánast samfellt á Vopnafirði síðan þá.
Cathy hefur staðið að baki Vesturfarasetri í Kaupvangi á Vopnafirði þar sem meðal annars hafa verið settar upp sýningar um vesturferðirnar. Hún hefur frá árinu 2013 starfað með hópnum Icelandic Roots sem heldur utan um ættir Vestur-Íslendinga.
Vopnafjarðarhreppur óskar Cathy innilega til hamingju með fálkaorðuna og með þökkum fyrir hennar frábæra starf hjá Vesturfarasetrinu!
Viðtal við Cathy má lesa á vefsíðu Austurfréttar: Fálkaorðan veitir aukinn kraft við ættfræðina.