Breyt­ingar á sorp­hirðu á nýju ári

Breyt­ingar á sorp­hirðu á nýju ári.

Krafan um aukna sjálf­bærni og bætta meðhöndlun úrgangs hefur aukist umtals­vert undan­farin ár. Í kjölfar þess voru umfangs­miklar laga­breyt­ingar samþykktar á Alþingi í júní 2021 sem munu ganga í gildi þann 1. janúar 2023. Tilgang­urinn með breyttum lögum er að skapa skil­yrði fyrir myndun hringrás­ar­hag­kerfis svo stuðla megi að sjálf­bærri auðlinda­notkun og draga úr myndun úrgangs. Rík áhersla er lögð á endur­vinnslu og endur­notkun hvers­konar og sem besta flokkun úrgangs.

Þá taka í gildi lög nr. 103/2021 um breyt­ingu á lögum um holl­ustu­hætti og meng­un­ar­varnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslu­gjald. Megin­krafan í lögunum er að innheimta skuli vera sem næst raun­kostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs sem er sniðin að því magni og þeirri tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér. Á þetta við um úrgang frá heim­ilum, grenndar- og endur­vinnslu­stöðvum og öðrum safn­stöðvum.

Meðal helstu breyt­inga sem snúa að íbúum má nefna:

  • Sama flokk­un­ar­kerfi mun gilda um allt land og verður skylt að flokka úrgang í að minnsta kosti sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúr­gangur, textíll, málmar, gler og spilli­efni.
  • Við heimili verður úrgangur flokk­aður í fjóra flokka í stað þriggja eins og nú er, það er ekki má lengur setja plast og pappa saman í ílát. Merk­ingar á sorpí­látum verða samræmdar um allt land til að einfalda flokkun og gera hana skil­virkari.
  • Innleiðing á kerfi sem kallast „Borgað þegar hent er“ miðar að því að sá sem hendir greiðir fyrir það í stað þess að sorp­hirðu­gjöldum sé jafnað niður á alla íbúa. Með innleið­ingu þessa kerfis greiða íbúar minna fyrir meðhöndlun á úrgangi með því að flokka betur og draga þannig úr magni hans. Nokkrar útfærslur eru til af slíkum kerfum en í grófum dráttum er hægt að skipta þeim upp í kerfi sem annar­s­vegar nota rúmmál sem viðmið og hins­vegar þyngd. Útfærslur eru mishent­ugar fyrir sveit­ar­félög og eiga að stuðla að sjálf­bæru samfé­lagi og betri dreif­ingu á kostnaði við meðhöndlun úrgangs. Vonast er til að hægt sé að lækka þjón­ustu­gjöld á íbúa með þessu og að kostn­aður sveit­ar­fé­lagsins vegna úrgangs lækki með tímanum.

Lögin munu taka gildi um áramótin en innleiðing breyt­ing­anna og aðlögun að þeim mun standa yfir allt árið 2023. Því er ljóst að ærið verk­efni er fyrir höndum að kanna hvaða leiðir henta Vopna­fjarð­ar­hreppi og íbúum best.

Sveit­ar­fé­lagið mun jafnt og þétt veita upplýs­ingar um stöðu innleið­ing­ar­innar og hvernig fyrir­komu­lagi verður háttað.