Frá og með þriðjudeginum 16. mars næstkomandi munu leiðakerfi Air Iceland Connect og Icelandair verða að einu leiðakerfi og sölu- og markaðsstarf sameinast undir vörumerki Icelandair. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar segir að vörur og þjónusta Icelandair, innanlands sem utan, verði þannig samræmdar og aðgengilegar á einum stað á www.icelandair.is. Unnið hefur verið að samþættingu starfsemi þessara tveggja félaga í nokkurn tíma.
Áfangastaðir Icelandair í innanlandsflugi verða eftir sem áður Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður og Vestmannaeyjar. Þá hafa Air Iceland Connect og Norlandair átt í samstarfi um flug til nokkurra áfangastaða á Íslandi til viðbótar, svo sem til Bíldudals og Gjögurs frá Reykjavík, ásamt flugi til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar frá Akureyri.
Hægt hefur verið að kaupa flugmiða á þessa áfangastaði í einum miða í gegnum bókunarsíðu Air Iceland Connect. Eftir samþættingu Air Iceland Connect og Icelandair breytist samstarf Norlandair við félagið þannig að flug á áfangastaði Norlandair verða einungis fáanleg á heimasíðu þess en ekki í gegnum bókunarsíðu Icelandair. Félögin munu þó áfram vinna þétt saman og engin breyting verður á þjónustu við farþega frá Akureyrarflugvelli né Reykjavíkurflugvelli. Þá vinna félögin að því í samstarfi við Vegagerðina að þeir farþegar sem nýta sér tengiflug Icelandair/Norlandair geti áfram nýtt sér Loftbrúarréttindi á þessum leiðum.