Sveitarfélagið tryggir margvísleg félagsleg úrræði fyrir íbúa sína. Vopnafjarðarhreppur á í samstarfi við Múlaþing um rekstur félagsþjónustu, sveitarfélagið á íbúðir sem leigðar eru út sem félagslegt húsnæði og veitir fjárhagsaðstoð til þeirra er þurfa.
Félagsþjónusta#felagsthjonusta
Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs annast félagsþjónustu á Vopnafirði í samstarfi við Vopnafjarðarhrepp.
Allar upplýsingar eru á vefsíðu félagsþjónustunnar.
Félagsþjónusta í sveitarfélaginu skal stuðla að auknum lífsgæðum og velferð íbúa svæðisins. Hún skal vera sveigjanleg og miðast við þörf þeirra er þurfa á henni að halda. Við framkvæmd þjónustunnar skal gæta þess að hvetja einstaklinginn til sjálfsábyrgðar, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar.
Með aukinni áherslu á forvarnir skal stefnt að því að draga úr þörf fyrir sértæk úrræði. Stuðla skal að því að skapa börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði og styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki þeirra. Einstaklingum sé gert kleift, svo lengi sem verða má, að búa í heimahúsum með því að veita sveigjanlega heimaþjónustu.
Vopnafjarðarhreppur annast heimilisþjónustu sína að eigin frumkvæði og ábyrgð. Fulltrúi sveitarfélagsins fundar með starfsfólki félagsþjónustunnar á fundum þess og gætir hagsmuna umbjóðenda sinna í hvívetna.
Félagslegt húsnæði#felagslegt-husnaedi
Vopnafjarðarhreppur hefur yfir að ráða nokkrum íbúðum sem leigðar eru út til íbúa í langtímaleigu.
Á skrifstofu sveitarfélagsins fást nánari upplýsingar um framboðið hverju sinni.
Fjárhagsaðstoð#fjarhagsadstod
Sveitarfélagið getur veitt einstaklingum og fjölskyldum undir sérstökum kringumstæðum fjárhagsaðstoð.
Annars vegar er um að ræða framfærslustyrk sem veita má einstaklingum sem ekki geta séð sér farborða með öðrum hætti, hins vegar er heimilt að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna og til að koma til móts við þarfir barna vegna þátttöku í þroskavænlegu félagsstarfi.
Þeim sem óska eftir að nýta sér slíka aðstoð er bent á að hafa samband við Félagsþjónustuna í síma 470 0705.