Leikskólinn Brekkubær er þriggja deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum 1 árs til 6 ára. Leikskólinn hefur verið starfræktur síðan 1.desember 1991. Foreldrafélag er starfrækt við leikskólann og vinnur vel með starfsfólki.
Á Brekkubæ eru þrjár deildir: Ásbrún fyrir 4–6 ára, Dagsbrún fyrir 3–4 ára og Hraunbrún fyrir 1–2 ára börn. Tekið er við eins árs börnum og biðlisti er yfirleitt stuttur eða enginn. Boðið er upp á nokkra vistunarmöguleika: 4, 5, 6 og 8 klst. Skólanámskrá og aðrar frekar upplýsingar má finna á vefsíðu Brekkubæjar.
Sagan#sagan
Í upphafi voru það kvenfélagskonur á Vopnafirði sem hófu rekstur gæsluvallar árið 1967 og var hann starfræktur í þrjá mánuði á sumrin. Leikskólinn var síðan stofnaður árið 1975 og var hann til húsa í sal Verkalýðsfélags Vopnafjarðar til ársins 1976, en þá fluttist hann í einbýlishús að Lónabraut 19 sem Vopnafjarðarhreppur átti og var leikskólinn starfræktur þar í nokkur ár. Þann 1. desember 1991 var síðan glæsilegur tveggja deilda leikskóli vígður, en bara önnur deildin var tekin í notkun það árið. Leikskólinn fékk nafnið Brekkubær, sem var valið úr mörgum nöfnum í hugmyndasamkeppni og var það Þorgerður Karlsdóttir sem átti það nafn. Þann 12. ágúst 2008 var opnuð ný viðbygging þar sem bættist við ein deild auk starfsmannaaðstöðu.