Vinir Vopnfirðingasögu er félagsskapur einstaklinga sem hafa sérstakan áhuga á Vopnfirðingasögu.
Vopnfirðingasaga er ein af bókum Íslendingasagnanna, hluti af einum mikilvægasta menningararfi okkar Íslendinga, bókmenntaarfinum. Vopnfirðingasaga er talin rituð á fyrri hluta 13. aldar (1225-1250) og gerist hugsanlega á tímabilinu 960-990. Söguslóðir eru í Vopnafirði og í raun á mjög afmörkuðu svæði að mestu í austanverðum Hofsárdal, frá Böðvarsdal við sjó og inn til dala og heiða. Auðvelt er í dag að komast að og/eða sjá flesta staði sem getið er um í sögunni. Vopnfirðingasaga er átakasaga tveggja höfðingjaætta vegna ágirndar, græðgi og valdabaráttu en líka vegna vináttu og fjölbreyttrar manna- og mannlífslýsinga sem einkenna söguna.
Til að vekja söguna til lífs þarf hóp af viljugu fólki sem skiptist á hugmyndum. Lítill hópur áhugamanna tók sig saman veturinn 2009 – 2010 og stofnaði félagið. Félagið hefur meðal annars teiknað upp kort af Vopnafirði þar sem sögustaðir eru merktir inn auk þess sem boðið hefur verið upp á ferðir með leiðsögn.
Allir sem hafa áhuga á Vopnfirðingasögu eru hvattir til að hafa samband við félagið.