Kvenfélagið hefur starfað allt frá 1921. Aðalstarfssvæðið var lengst af sveitin, en nú starfa konur úr öllu byggðarlaginu í félaginu. Allt frá upphafi hefur verið markmið félagsins að styðja þá sem minna mega sín og leggja góðum málum í samfélaginu lið. Konur í kvenfélaginu hafa unnið þrotlaust að ýmsum velferðarmálum. Í seinni tíð ber hæst byggingu Sundabúðar, aðstoð við kaup á búnaði til grunnskólans, endurbyggingu Staðarholts sem nú er félagsheimili kvenfélagsins og stofnun Menntasjóðs Lindarinnar sem stutt hefur konur til framhaldsnáms síðan 1997. Lindarkonur styðja við Minjasafnið á Bustarfelli með sjálfboðavinnu við hreinsun bæjarins og á safnadaginn.