Saga Vopna­fjarðar

Saga Vopna­fjarðar nær allt aftur til land­náms en nafn fjarð­arins er dregið af nafni eins land­náms­mann­anna, Eyvindar Vopna.

Landnám #landnam

Við landnám eru taldir þrír land­náms­menn í Vopna­firði: Eyvindur vopni og Hróaldur bjólan sem voru fóst­bræður og Lýtingur Ásbjarn­arson.

Nafn fjarð­arins er dregið af viður­nefni Eyvindar sem nam Hofs­árdal og hluta Vesturár­dals austan megin og bjó hann á Syðri-vík sem munhafa heitið Krossavík innri.

Hróaldur nam Selárdal, hluta Vesturár­dals og norð­ur­strönd fjarð­arins. Hann bjó fyrst á Hróalds­stöðum í Selárdal en síðar á Torfa­stöðum í Vesturárdal. Lýtingur nam aust­ur­strönd fjarð­arins og bjó sér bú á Krossavík ytri. Nefna má bróð­urson Eyvindar vopna, Stein­björn kört Refsson, sem má telja fjórða land­náms­manninn þar sem hann settist að á Hofi eftir að Eyvindur frændi hans gaf honum land milli Hofsár og Vest­ur­dalsár. Loks kom Þorsteinn hvíti Ölvesson frá Noregi og keypti hann land af Eyvindi og síðar Stein­birni. Hann bjó lengstum á Hofi.

Héraðsvöld og goða­vald skiptist í upphafi milli Hofverja og Kross­vík­inga. Sameig­in­legur þingstaður var í Sunnudal en í heiðni var Goðahof á Hofi og efldi það héraðsvöld Hofverja. Brodd-Helgi sonar­sonur Þorsteins hvíta fær Höllu systur Geitis Lýtings­sonar en skildi við hana og ósætti varð vegna fjár­skipta þeirra. Fer svo að Geitir vegur Helga á Sunnu­dals­þingi en sættir takast við Víga-Bjarna son Helga. Víga-Bjarni rýfur sætt­irnar að áeggjan stjúpu sinnar og vegur Geiti. Mun hann hafa iðrast vígsins. Leiddi þetta til fjand­skapar milli Bjarna og Þorkels Geit­is­sonar sem endaði með orrustu milli þeirra í Böðv­arsdal. Særðist þar Þorkell og greru sár hans illa. Sendi þá Bjarni honum lækni sem læknaði sár hans og það ásamt milli­göngu Jórunnar, konu Þorkels, varð til þess að sættir tókust og flutti Þorkell á endanum til Bjarna að Hofi þar sem hann bjó til dauða­dags. Þorkell átti aðeins eina dóttir sem fluttist burt og eftir að hann fluttist sjálfur að Hofi færðust öll völd til Hofverja.

Vopn­firð­inga­saga segir um Þorkel Geit­isson að hann hafi verið hreysti­menni og fylginn sér en Hofverjar hafi ekki verið spakir að viti þó flest hafi vel til tekist. Forræði Hofverja nær til 1122 í beinan karllegg en þá koma til sögunar Valþjófstaða­menn sem raunar bjuggu löngum á Hofi og tengdust Hofverjum. Er svo allt til loka þjóð­veld­isins en Aust­firð­inga­fjórð­ungur gaf ekki eftir sjálfs­for­ræði sitt fyrr en 1264, tveimur árum síðar en aðrir lands­fjórð­ungar. Eftir það eru heim­ildir stop­ular og stór hluti sögunar óþekktur.

Landbúnaður#landbunadur

Í Vopna­firði hefur löngum verið stund­aður þrótt­mikill land­bún­aður. Stærstu svæðin og jafn­framt þau frjó­söm­ustu eru í Hofs­árdal en einnig eru nokkur bú með ströndum Vopna­fjarðar svo og í Selárdal og Vesturárdal. Áður var búið víða um sveit­irnar og jafnvel á heið­unum upp af firð­inum en mörg býli fóru í eyði á liðinni öld. Mest er um sauð­fjár­rækt og skila­rétt er við Hofsá neðan við Teig. Einnig er nokkur mjólk­ur­fram­leiðsla. Stofnað var mjólk­ur­samlag 1963 sem sá um mjólk­ur­fram­leiðslu fyrir Vopna­fjörð, Bakka­fjörð og Þórs­höfn en einnig er þar smjör­gerð og frum­fram­leiðsla á ostum. Samlagið var lagt af vorið 2006. Hrossa­eign er tals­verð í Vopna­firði og þar er starf­andi hesta­manna­fé­lagið Glófaxi.

Verslun#verslun

Vitað er að erlendir kaup­menn sigldu til Vopna­fjarðar fyrr á öldum en á einok­un­ar­tím­anum var Vopna­fjörður einn af þremur versl­un­ar­stöðum á Aust­ur­landi. Þegar verslun var gefin frjáls 1787 hófu ýmsir aðilar að versla á Vopna­firði en 1814 hafði Ørum & Wulff komið sér fyrir og rak upp frá því umsvifa­mikla verslun í meira en öld. 1918 var Kaup­félag Vopn­firð­inga stofnað og rak verslun allt ársins 2004 er félagið lagðist af en var alla öldina einn helsti atvinnu­rek­andinn á staðnum. Kaup­fé­lagið rak auk verslana slátur- og frystihús, bifreiða­verk­stæði og trésmiðju ásamt því að vera hlut­hafi í fyrir­tækjum.

Kaup­vangur er eitt af gömlu húsunum í bænum. Það var byggt 1882 af dönskum bygg­inga­meistara sem Fredrik Bald hét. Bald er bygg­inga­meistari bæði Alþingis- og Hegn­ing­ar­hússins í Reykjavík. Kaup­vangur var nýttur af Ørum & Wolff uns kaup­fé­lagið keypti húsið árið 1918 og rak þar verslun til 1959. Í húsinu var aðal­verslun kaup­fé­lagsins og íbúð kaup­fé­lags­stjóra. Eftir að versl­unin flutti úr húsinu var það nýtt fyrir 3 íbúðir og sem vöru­geymsla fyrir kaup­fé­lagið þar til um 1982, en húsið stóð autt um árabil og grotnaði niður.

Kaup­vangur hefur gengið í endur­nýjun lífdaga og komið í upprun­an­legt form að nokkru – og er eitt glæsi­leg­asta hús sveit­ar­fé­lagsins. Hugmyndir eru um að tengja starf­semi þess við vest­ur­ferðir Íslend­inga þar sem mikill fjöldi fólks lagði upp frá Vopna­firði vestur um haf eða um 1200 manns, sem mun vera með því mesta sem um getur frá einum stað. Önnur möguleg not eru starf­semi hand­verks­húss, list­sýn­ingar, viðburðir í ýmsum myndum, o. fl.

Sjávarútvegur#sjavarutvegur

Sjáv­ar­út­vegur hefur spilað stórt hlut­verk í mann­lífi Vopna­fjarðar. Tölu­vert útræði var þar seinni hluta 19. aldar og komu menn víða að til að sækja sjóinn þaðan. Með vélbáta­út­gerð upp úr aldar­mót­unum 1900 jókst enn sjósókn frá Vopna­firði en nokkuð háði það þessari atvinnu­grein hvað hafn­ar­skil­yrði voru slök frá nátt­úr­unar hendi. Það batnaði þó með tilkomu varn­ar­garðs upp úr miðri öld. Mikil umsvif voru í síld­ar­söltun á síld­arár­unum á 6. og 7. áratugnum og báta- og togara­út­gerð hefur verið stunduð þaðan seinni hluta aldar­innar.

Hafn­ar­að­staða er miður góð frá nátt­úr­unnar hendi og höfnin var illa varin. Urðu bátar oft fyrir skemmdum í vondum veðrum. Algjör umskipti urðu þegar varn­ar­garður var byggður milli lands og hólma 1968. Varna­garð­urinn sem er um 600 metra langur varði höfnina um árabil. Árið 2001 hófst hönnun á brim­garði milli Mið- og Skip­hólma er árið 2004 stóð full­byggður og má full­yrða að nú er ágæt höfn á Vopna­firði. Jafn­framt þessari fram­kvæmd hefur sveit­ar­fé­lagið ráðist í mikla stækkun á viðlegu hafn­ar­innar og er enn unnið að stækkun hennar árið 2006.

Sveitarstjórar#sveitarstjorar

  • Sara Elísabet Svans­dóttir, 2020–
  • Þór Stein­arsson, 2018–2020
  • Ólafur Áki Ragn­arsson, 2014–2018
  • Þorsteinn Steinsson, 1998–2014
  • Vilmundur Gíslason, 1990–1998
  • Sveinn Guðmundsson, 1984–1990
  • Kristján Magnússon, 1974–1984
  • Haraldur Gíslason, 1967–1974
  • Guðjón Ingi Sigurðsson, 1966–1967