Saga Vopnafjarðar nær allt aftur til landnáms en nafn fjarðarins er dregið af nafni eins landnámsmannanna, Eyvindar Vopna.
Landnám #landnam
Við landnám eru taldir þrír landnámsmenn í Vopnafirði: Eyvindur vopni og Hróaldur bjólan sem voru fóstbræður og Lýtingur Ásbjarnarson.
Nafn fjarðarins er dregið af viðurnefni Eyvindar sem nam Hofsárdal og hluta Vesturárdals austan megin og bjó hann á Syðri-vík sem munhafa heitið Krossavík innri.
Hróaldur nam Selárdal, hluta Vesturárdals og norðurströnd fjarðarins. Hann bjó fyrst á Hróaldsstöðum í Selárdal en síðar á Torfastöðum í Vesturárdal. Lýtingur nam austurströnd fjarðarins og bjó sér bú á Krossavík ytri. Nefna má bróðurson Eyvindar vopna, Steinbjörn kört Refsson, sem má telja fjórða landnámsmanninn þar sem hann settist að á Hofi eftir að Eyvindur frændi hans gaf honum land milli Hofsár og Vesturdalsár. Loks kom Þorsteinn hvíti Ölvesson frá Noregi og keypti hann land af Eyvindi og síðar Steinbirni. Hann bjó lengstum á Hofi.
Héraðsvöld og goðavald skiptist í upphafi milli Hofverja og Krossvíkinga. Sameiginlegur þingstaður var í Sunnudal en í heiðni var Goðahof á Hofi og efldi það héraðsvöld Hofverja. Brodd-Helgi sonarsonur Þorsteins hvíta fær Höllu systur Geitis Lýtingssonar en skildi við hana og ósætti varð vegna fjárskipta þeirra. Fer svo að Geitir vegur Helga á Sunnudalsþingi en sættir takast við Víga-Bjarna son Helga. Víga-Bjarni rýfur sættirnar að áeggjan stjúpu sinnar og vegur Geiti. Mun hann hafa iðrast vígsins. Leiddi þetta til fjandskapar milli Bjarna og Þorkels Geitissonar sem endaði með orrustu milli þeirra í Böðvarsdal. Særðist þar Þorkell og greru sár hans illa. Sendi þá Bjarni honum lækni sem læknaði sár hans og það ásamt milligöngu Jórunnar, konu Þorkels, varð til þess að sættir tókust og flutti Þorkell á endanum til Bjarna að Hofi þar sem hann bjó til dauðadags. Þorkell átti aðeins eina dóttir sem fluttist burt og eftir að hann fluttist sjálfur að Hofi færðust öll völd til Hofverja.
Vopnfirðingasaga segir um Þorkel Geitisson að hann hafi verið hreystimenni og fylginn sér en Hofverjar hafi ekki verið spakir að viti þó flest hafi vel til tekist. Forræði Hofverja nær til 1122 í beinan karllegg en þá koma til sögunar Valþjófstaðamenn sem raunar bjuggu löngum á Hofi og tengdust Hofverjum. Er svo allt til loka þjóðveldisins en Austfirðingafjórðungur gaf ekki eftir sjálfsforræði sitt fyrr en 1264, tveimur árum síðar en aðrir landsfjórðungar. Eftir það eru heimildir stopular og stór hluti sögunar óþekktur.
Landbúnaður#landbunadur
Í Vopnafirði hefur löngum verið stundaður þróttmikill landbúnaður. Stærstu svæðin og jafnframt þau frjósömustu eru í Hofsárdal en einnig eru nokkur bú með ströndum Vopnafjarðar svo og í Selárdal og Vesturárdal. Áður var búið víða um sveitirnar og jafnvel á heiðunum upp af firðinum en mörg býli fóru í eyði á liðinni öld. Mest er um sauðfjárrækt og skilarétt er við Hofsá neðan við Teig. Einnig er nokkur mjólkurframleiðsla. Stofnað var mjólkursamlag 1963 sem sá um mjólkurframleiðslu fyrir Vopnafjörð, Bakkafjörð og Þórshöfn en einnig er þar smjörgerð og frumframleiðsla á ostum. Samlagið var lagt af vorið 2006. Hrossaeign er talsverð í Vopnafirði og þar er starfandi hestamannafélagið Glófaxi.
Verslun#verslun
Vitað er að erlendir kaupmenn sigldu til Vopnafjarðar fyrr á öldum en á einokunartímanum var Vopnafjörður einn af þremur verslunarstöðum á Austurlandi. Þegar verslun var gefin frjáls 1787 hófu ýmsir aðilar að versla á Vopnafirði en 1814 hafði Ørum & Wulff komið sér fyrir og rak upp frá því umsvifamikla verslun í meira en öld. 1918 var Kaupfélag Vopnfirðinga stofnað og rak verslun allt ársins 2004 er félagið lagðist af en var alla öldina einn helsti atvinnurekandinn á staðnum. Kaupfélagið rak auk verslana slátur- og frystihús, bifreiðaverkstæði og trésmiðju ásamt því að vera hluthafi í fyrirtækjum.
Kaupvangur er eitt af gömlu húsunum í bænum. Það var byggt 1882 af dönskum byggingameistara sem Fredrik Bald hét. Bald er byggingameistari bæði Alþingis- og Hegningarhússins í Reykjavík. Kaupvangur var nýttur af Ørum & Wolff uns kaupfélagið keypti húsið árið 1918 og rak þar verslun til 1959. Í húsinu var aðalverslun kaupfélagsins og íbúð kaupfélagsstjóra. Eftir að verslunin flutti úr húsinu var það nýtt fyrir 3 íbúðir og sem vörugeymsla fyrir kaupfélagið þar til um 1982, en húsið stóð autt um árabil og grotnaði niður.
Kaupvangur hefur gengið í endurnýjun lífdaga og komið í upprunanlegt form að nokkru – og er eitt glæsilegasta hús sveitarfélagsins. Hugmyndir eru um að tengja starfsemi þess við vesturferðir Íslendinga þar sem mikill fjöldi fólks lagði upp frá Vopnafirði vestur um haf eða um 1200 manns, sem mun vera með því mesta sem um getur frá einum stað. Önnur möguleg not eru starfsemi handverkshúss, listsýningar, viðburðir í ýmsum myndum, o. fl.
Sjávarútvegur#sjavarutvegur
Sjávarútvegur hefur spilað stórt hlutverk í mannlífi Vopnafjarðar. Töluvert útræði var þar seinni hluta 19. aldar og komu menn víða að til að sækja sjóinn þaðan. Með vélbátaútgerð upp úr aldarmótunum 1900 jókst enn sjósókn frá Vopnafirði en nokkuð háði það þessari atvinnugrein hvað hafnarskilyrði voru slök frá náttúrunar hendi. Það batnaði þó með tilkomu varnargarðs upp úr miðri öld. Mikil umsvif voru í síldarsöltun á síldarárunum á 6. og 7. áratugnum og báta- og togaraútgerð hefur verið stunduð þaðan seinni hluta aldarinnar.
Hafnaraðstaða er miður góð frá náttúrunnar hendi og höfnin var illa varin. Urðu bátar oft fyrir skemmdum í vondum veðrum. Algjör umskipti urðu þegar varnargarður var byggður milli lands og hólma 1968. Varnagarðurinn sem er um 600 metra langur varði höfnina um árabil. Árið 2001 hófst hönnun á brimgarði milli Mið- og Skiphólma er árið 2004 stóð fullbyggður og má fullyrða að nú er ágæt höfn á Vopnafirði. Jafnframt þessari framkvæmd hefur sveitarfélagið ráðist í mikla stækkun á viðlegu hafnarinnar og er enn unnið að stækkun hennar árið 2006.
Sveitarstjórar#sveitarstjorar
- Sara Elísabet Svansdóttir, 2020–
- Þór Steinarsson, 2018–2020
- Ólafur Áki Ragnarsson, 2014–2018
- Þorsteinn Steinsson, 1998–2014
- Vilmundur Gíslason, 1990–1998
- Sveinn Guðmundsson, 1984–1990
- Kristján Magnússon, 1974–1984
- Haraldur Gíslason, 1967–1974
- Guðjón Ingi Sigurðsson, 1966–1967