Vopnafjarðarhreppur er á lokametrunum í ferlinu til að verða Barnvænt sveitarfélag í samstarfi við UNICEF á Íslandi. Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Markmiðið með verkefninu er að tryggja að rödd barna heyrist í öllum ákvörðunum sem varða þau og að þau alist upp í virku og öruggu samfélagi þar sem þau njóta jafns rétts og tækifæra.
Vopnafjarðarhreppur stefnir að því að hljóta viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag fyrir áramótin 2025. Ferlið tekur almennt um tvö ár og viðurkenning frá UNICEF Íslandi gildir í þrjú ár. Til að viðhalda henni þarf sveitarfélagið að setja sér ný markmið og halda áfram framþróuninni. Verkefnið hefur verið unnið í nánu samstarfi við starfsfólk sveitarfélagsins, skóla, frístundastarf, ungmennaráð og ekki síst börnin sjálf.
Barnvænt sveitarfélag leggur áherslu á:#barnvaent-sveitarfelag-leggur-aherslu-a
- Að börn hafi áhrif á umhverfi sitt og ákvarðanir
- Að velferð barna sé í forgrunni í allri stefnumótun
- Að mannréttindi barna séu virt og efld
- Að raddir barna heyrist – í raun og veru.
Nú stendur yfir vinna við lokaskýrslu, þar sem niðurstöður og næstu skref verða kynnt.
Hægt er að kynna sér nánar um verkefnið á heimasíðu Barnvænna sveitarfélaga hér.