Nú hefur verið undirritaður nýr samningur á milli Vopnafjarðarhrepps og Múlaþings um þátttöku í sameiginlegum kostnaði við brunavarnir í Múlaþingi, Vopnafjarðarhreppi og Fljótsdalshreppi. Áður hafði Slökkvilið Vopnafjarðar verið hluti af Brunavörnum Austurlands.
Í nýjum samningi kemur m.a. fram að Slökkvilið Múlaþings annist brunavarnir í Vopnafjarðarhreppi samkvæmt þeim þjónustukröfum sem gerðar eru í lögum um brunavarnir og brunamál hverju sinni. Auk þess sinnir SM eldvarnareftirliti í Vopnafjarðarhreppi.
Vopnafjarðarhreppur á fasteignir og búnað Slökkviliðs Vopnafjarðar, ásamt búnaði slökkviliðsmanna og ber ábyrgð á að þau mál séu í samræmi við kröfur, lög og reglugerðir um brunavarnir og brunamál hverju sinni.
Á Vopnafirði verða áfram starfandi tveir varðstjórar Slökkviliðs Vopnafjarðar, sem munu í góðu samráði við Slökkvilið Múlaþings koma að skipulagi brunavarna, æfingum, þjálfun og aðgerðastjórn á vettvangi. Nýr samningur gildir frá 01.02.2025 og er ótímabundinn, en getur komið til endurskoðunar við hver áramót og er uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara.
Þriðjudaginn 4. febrúar s.l. var haldinn samráðsfundur á slökkvistöðinni á Vopnafirði, um nýtt upphaf. Á næstunni verður auglýst eftir fleiri slökkviliðsmönnum í Slökkvilið Vopnafjarðar, farið yfir búnað og aðstöðu slökkviliðsins . Einnig stendur til að halda kynnigu á starfsseminni auk þess að skipulagðar verða kynningar og þjálfun fyrir nýja aðila í slökkviliði.
Á meðfylgjandi mynd má sjá: Haraldur Geir Eðvaldsson, Slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Múlaþings, Ingvar Birkir Einarsson, Varaslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Múlaþings, Björn Heiðar Sigurbjörnsson og Hreiðar Geirsson varðstjórar við Slökkvilið Vopnafjarðar.