Vopnafjarðarhreppur hefur nú tekið í notkun nýjan landupplýsingavef, eða kortavefsjá sveitarfélagsins, sem markar stórt framfaraskref í stafrænum innviðum sveitarfélagsins.
Vefsjáin er hýst og unnin af Eflu verkfræðistofu, og hefur Þjónustumiðstöð Vopnafjarðarhrepps unnið að verkefninu í samstarfi við Eflu frá því snemma á árinu.
Kortavefsjáin veitir notendum aðgang að fjölbreyttum upplýsingum sem áður voru að mestu bundnar við skjalaskápa, möppur og teikningar í pappírsformi. Þar má nú finna upplýsingar um dreifikerfi vatnsveitu, fráveitu og ljósleiðara, auk lóðamerkja, snjómokstursleiða, skipulagsgagna og annarra mikilvægra þátta sem tengjast innviðum sveitarfélagsins.
Verkefnið er í stöðugri þróun, og er þegar hafin vinna við að færa inn teikningar af fasteignum í sveitarfélaginu. Í framhaldinu verður unnið að því að skrá upplýsingar um fráveitu- og vatnslagnir innan lóðamarka, sem mun auka nákvæmni og gagnsemi kerfisins enn frekar.
Með tilkomu kortavefsjárinnar verða dagleg störf sveitarfélagsins einfaldari og skilvirkari, en jafnframt verður almenningi gert auðveldara að nálgast upplýsingar um sitt nærumhverfi.
Vefsjáin mun þannig nýtast bæði íbúum, verktökum og starfsmönnum sveitarfélagsins sem áreiðanleg og aðgengileg upplýsingagátt.
Kortavefsjáin er opin öllum og aðgengileg á eftirfarandi slóð: kort.is/vopnafjordur