Vopnafjörður fékk verðskuldaða athygli á Matarmóti Austurlands, sem haldið á Egilsstöðum laugardaginn 9. nóvember s.l, en þar voru um 30 framleiðendur frá Austurlandi með kynningu á vörum sínum.
Nýtingarmiðstöð á Vopnafirði var þar með kynningu en mikla athygli vakti samstarf aðila úr kokkalandsliðinu við Sláturhúsið á Refsstað og Ferðaþjónustuna Síreksstöðum. Þar voru matreiddir smáréttir úr innmat og fleiri afurðum frá þessum aðilum og bornir fram á smekklegan og bragðgóðan hátt.
Einnig voru Síreksstaðir með sérstakan sýningar- og sölubás auk þess sem Helgi Þorsteinsson æðarbóndi að Ytri-Nýpi var með kynningarbás með sinni dúnmjúku vöru.
Austurbrú stendur að og heldur viðburðinn og er tilgangur hans m.a. að tryggja sjálfbærni í matvælaframleiðslu og að auka sjálfbærnivitund og bæta lífsstíl okkar.
Meðfylgjandi mynd sýnir Rögnvald Þorgrímsson, verkefnastjóra Nýtingarmiðstöðvar á Vopnafirði ásamt fulltrúum úr kokkalandsliði Íslands.