Háskóli Íslands hefur frá árinu 2005 haldið keppnina First Lego League Challange fyrir ungmenni á aldrinum 10 – 16 ára. Keppnin er alþjóðleg og nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim. Markmið keppninnar er að skapa færni í vísindum, verkfræði og tækni, örva nýsköpun og byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samvinnu- og samskiptahæfni.
Liðin hanna og forrita Lego þjark (vélmenni) sem leysir þrautir ársins í vélmennakappleik, vinna nýsköpunarverkefni með því að kanna og leysa raunveruleg vandamál sem tengjast viðfangsefni (þema) hvers árs og byggja upp góðan liðs- og keppnisanda. Að þessu sinni var viðfangsefnið Submerged, eða neðansjávar, og nýsköpunarverkefni hópsins snerist um að hanna vistkerfi fyrir kaldsjávarkóralla.
Lið Vopnafjarðarskóla hefur sýnt einstaklega góðan árangur í þessari keppni og sigrað hana þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum (2021, 2022 og í ár, 2024) auk þess sem liðið varð í öðru sæti í fyrra, 2023.
Liðið í ár er skipað 7 nemendum, þeim Baldri Geir Hlynssyni og Frey Þorsteinssyni úr 10. bekk, Kristófer Franz Svanssyni úr 9. bekk og Alexöndru Björk Þorgrímsdóttur, Guðjóni Snæ Ólafssyni, Vigni Þráinssyni og Viktori Páli Oddssyni úr 8. bekk. Kennarar og þjálfarar þeirra
eru Sólrún Dögg Baldursdóttir og Berglind Ósk Wiium Bárðardóttir.
Nú stefnir liðið á heimsmeistarakeppnina sem fer fram í Houston, Texas, 16. — 19. apríl 2025.
Ferðalagið er kostnaðarsamt og hafa þau hafið fjáröflun fyrir ferðina.
Til að styrkja þau má leggja inn á eftirfarandi reikning:
kt. 121087-2869
reikningsnúmer: 0123-26-091345
Við óskum liði DODICI innilega til hamingju með sigurinn og um leið óskum við þeim góðs gengis í heimsmeistarakeppninni.