Societas Heraldica Scandinavica hefur kjörið merki Vopnafjarðarhrepps sem Norræna sveitarfélagsmerkið 2024!
Þá afhenti fulltrúi Societas Heraldica Scandinavica og stjórnarmeðlimur, Halldór Baldursson, sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, Valdimar O. Hermannssyni, viðurkenningarskjal og grip í tilefni kjörsins.
Societas Heraldica Scandinavica telur að með merki sínu tengi Vopnafjarðarhreppur arfleifð íslenskra fornsagna og táknmálshefð skjaldarmerkjafræðinnar. Því hefur félagið kjörið merki Vopnafjarðarhrepps norræna sveitarfélagsmerkið 2024.
Vopnafjarðarhreppur er dæmi um byggðarfélag sem hefur lengi haft dreka í sínu merki, en núverandi útfærsla var gerð hjá Kolofon hönnunarstofu árið 2020.
Blái liturinn í merkinu vísar til hafs og fjalla, en drekinn vísar til frásagnar í Heimskringlu. Þar segir að Haraldur Gormsson Danakonungur hafði í hyggju að fara herför til Íslands og sendi njósnara til að kanna aðstæður. Sá var fjölkunnugur og brá sér í hvalslíki fyrir ferðina. Hann kom í Vopnafjörð og ætlaði að ganga á land, en þar kom á móti honum dreki mikill og fylgdu margir ormar, pöddur og eðlur, sem spúðu eitri. Njósnarinn fékk svipaðar móttökur í öðrum landshlutum og ekkert varð af herför Danakonungs til Íslands.
Societas Heraldica Scandinavica (www.heraldik.org) er norrænt félag áhugamanna um skjaldarmerkjafræði. Árið 2019 ákvað félagið að kjósa norrænt sveitafélagsmerki ársins og frá og með árinu 2020 hefur slíkt kjör farið fram árlega. Með þessu vill félagið heiðra sveitarfélög, sem nota merki sitt með prýði, en einnig kemur til álita skjaldfræðileg útfærsla merkis. Merki Vopnafjarðarhrepps á hrós skilið fyrir einfaldleika og skýra tengingu við sögu frá miðöldum.
Á síðari árum hafa ný sveitarfélög orðið til á Norðurlöndum vegna samruna sveitarfélaga og þar með hefur skapast þörf fyrir ný sveitarfélagamerki. Önnur sveitarfélög hafa látið gera nýja útfærslu fyrri merkja — oft með tilliti til stafrænnar notkunar. Skjaldarmerkjafræðin hafa þann mikla kost, að merkið er skilgreint með innihaldi sínu, en ekki með útfærslunni. Það þýðir að unnt er að forma merkið á ýmsan hátt til margvíslegrar notkunar, en merkið er þó í eðli sínu hið sama. Societas Heraldica Scandinavica telur mikilvægt að vekja athygli á góðum dæmum um slíka endurnýjun, til fyrirmyndar öðrum sveitarfélögum, sem íhuga að breyta merkjum sínum.
—
Ef áhugi er fyrir nánari upplýsingum má hafa samband við:
Valdimar O. Hermannsson — Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps — valdimarh@vfh.is
Halldór Baldursson — Formaður Sociatas Heraldica Islandica — halldorba@simnet.is
Rúna Dögg Cortez — Kolofon hönnunarstofa — runa@kolofon.is