Björg Einarsdóttir á Bustarfelli, hlaut menningarverðlaun Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) á sjöunda haustþingi samtakanna sem haldið var á Vopnafirði 18. september síðastliðinn. Björg hefur varið rúmum fjórum áratugum í ómetanlegt starf við Minjasafnið á Bustarfelli, þar sem hún hefur unnið að varðveislu menningararfs svæðisins, auk víðtækrar þátttöku í samfélagsstörfum á Vopnafirði. Björg hefur þar starfað í kvenfélaginu, veiðifélagi og safnaðarstarfi svo eitthvað sé nefnt. Í ræðu formanns SSA kom m.a. fram að hún væri vel að verðlaununum komin fyrir ómetanlegt framlag til menningar- og samfélags á Austurlandi.
Á þinginu komu saman sveitarstjórnarfulltrúar og stjórnendur frá fjórum sveitarfélögum Austurlands ásamt fulltrúum Austurbrúar. Ásamt veitingu menningarverðlauna, voru þar m.a. samþykktar ályktanir um bætta geðheilbrigðisþjónustu, tafarlausar samgönguframkvæmdir og jöfnun raforkukostnaðar. Heiðursgestur þingsins var Smári Geirsson, kennari, sveitarstjórnarmaður og sagnfræðingur, sem hefur markað djúp spor í sögu og menningu Austurlands.
Nánar um Haustþingið má lesa á heimasíðu Austurbrúar.
Við viljum óska Björgu innilega til hamingju með verðskulduð menningarverðlaun SSA!