Sveitarstjórn
Fundur nr. 21
Kjörtímabilið 2022—2026
29. nóvember 2023
Félagsheimilinu Miklagarði kl. 14:00
Íris Edda Jónsdóttir ritaði fundargerð
Mætt til fundar
Fundur haldinn í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 29. nóvember 2023 í félagsheimilinu Miklagarði kl 14:00.
- Málefni hjúkrunarheimilisins Sundabúðar, samningur við Sjúkratryggingar Íslands
Málefni hjúkrunarheimilisins Sundabúðar hefur verið um langt skeið til ítarlegrar umfjöllunar innan sveitarfélagsins. Jafnframt hefur sveitarstjórn verið um árabil í viðræðum við heilbrigðisyfirvöld um málaflokkinn þar sem ljóst er að fjárhagslegur grundvöllur reksturs hjúkrunarheimilisins Sundabúðar er brostinn, þrátt fyrir að stjórnendur og starfsfólk hafi kappkostað að haga rekstrinum sem best og um leið staðið vörð um faglegt starf og kröfur.
Hjúkrunarheimilið hefur verið rekið með stöðugu tapi frá því að sveitarfélagið tók við rekstrinum í ársbyrjun 2013 og hefur ríkissjóður ekki innt af hendi framlög til sveitarfélagsins vegna þess taprekstrar.
Daggjaldatekjur Sundabúðar að smæðarálagi meðtöldu miðað við fulla nýtingu hjúkrunarrýma og sjúkra/endurhæfingarrýmis duga ekki fyrir kostnaði við lágmarksmönnun hjúkrunarheimilisins og er uppsafnaður halli í dag orðinn um 396 milljónir króna á þessum tíma. Þá hefur sveitarfélagið lagt til fé á móti úr rekstri sínum þrátt fyrir að ábyrgð málaflokksins sé á hendi ríkisvaldsins.
Vegna þessa segir sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps upp samningi um rekstur Sundabúðar við Sjúkratryggingar Íslands.
Um leið minnir sveitarstjórn á að ríkisvaldinu er skylt að taka við rekstrinum og óskar þess að enginn brestur verði á þjónustu við heimilismenn á hjúkrunarheimilinu og að réttindi og kjör starfsmanna þess haldist óbreytt líkt og kom fram við svipaðar aðstæður í Fjarðabyggð þegar ríkisvaldið samþykkti að taka við rekstri hjúkrunarheimilanna þar.
Eftirfarandi tillaga liggur fyrir fundinum: Sveitarstjórn samþykkir að samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilisins Sundabúðar verði sagt upp og felur sveitarstjóra framkvæmd uppsagnarinnar.
Til máls tóku: Axel Örn Sveinbjörnsson, Bjartur Aðalbjörnsson og Björn Heiðar Sigurbjörnsson.
Samþykkt samhljóða.
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 14:14.