Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri, lagði fram áætlunina til síðari umræðu í sveitarstjórn.
Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2023 í milljónum kr.
Rekstrarniðurstaða
Samstæða A hluta jákvæð um 23 m.kr
Samstæða A og B hluta jákvæð um 85 m.kr.
Fjárfestingar
Samstæða A hluta: 59 m.kr
Samstæða A og B hluta: 181 m.kr.
Afborganir langtímalána
Samstæða A hluta: 26,5 m.kr.
Samstæða A og B hluta: 57,7 m.kr.
Í fjárhagsáætlun 2023 eru áætlaðar heildartekjur 1.543 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 166 m.kr. Handbært fé í árslok 2023 er 10 m.kr og er þá engin lántaka fyrirhuguð. Eigið fé er áætlað að nemi 116 m.kr. í A hluta og 979 m.kr. í samstæðu í árslok 2023. Almennt hækka gjaldskrár í takti við verðlagsbreytingar.
Fjárfestingar ársins 2023 eru áætlaðar 181 millj.kr.
Skuldahlutfall samstæðu A og B hluta verður 62% í árslok 2023.
Fjárhagsáætlun 2023-2026 í heild sinni verður að öðru leyti aðgengileg á heimasíðu Vopnafjarðarhrepps.
Eftirfarandi tillaga lögð fram: Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps samþykkir framlagða fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2023 við seinni umræðu, ásamt þriggja ára áætlun 2024 - 2026 og framangreindum álagningarhlutföllum og viðmiðunartölum. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram 24. nóvember sl.
Til máls tóku Sara Elísabet Svansdóttir, Axel Örn Sveinbjörnsson, Kristrún Ósk Pálsdóttir, Hafdís Bára Óskarsdóttir, Björn Heiðar Sigurbjörnsson og Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir.
Eftirfarandi breytingartillögur lagðar fram frá Vopnafjarðarlistanum:
Breytingartillaga 1
Vopnafjarðarlistinn leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:
Vopnafjarðarlistinn leggur til að sveitarfélagið verji á næsta ári allt að tveimur milljónum króna í undirbúningshönnun á leiguíbúðum fyrir aldraða.
Mikil eftirspurn er eftir íbúðum og íbúaþróun á þann veg að eldri borgurum fjölgar frekar en fækkar. Það er nauðsynlegt að geta boðið íbúum Vopnafjarðar upp á fleiri möguleika en þær íbúðir sem nú eru í boði í Sundabúð.
Leggjum til að tillagan verði fjármögnuð með því að skera alfarið niður fjármagn til jólaljósakaupa í Hamrahlíð og viðhaldi á kjallaraherbergi í Miklagarði.
Breytingartillaga 2
Vopnafjarðarlistinn leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:
Vopnafjarðarlistinn leggur til að á næsta ári verði einni milljón króna varið í uppbyggingu sjósundsaðstöðu í Sandvík.
Tillagan skal fjármögnuð með því að skera framlög til Kaupvangs
niður um eina milljón.
Axel Örn Sveinbjörnsson óskar eftir tíu mínútna fundarhléi.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Breytingartillaga:
Framsókn og óháðir leggja fram eftirfarandi breytingatillögu við breytingartillögu 1 og 2: Tillögurnar verða fjármagnaðar með handbæru fé.
Breytingartillaga 1 frá Vopnafjarðarlistanum borin upp til samþykktar.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Breytingartillaga 2 frá Vopnafjarðarlistanum borin upp til samþykktar.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Breytingartillaga frá Framsókn og óháðum við breytingartillögu 1 og 2 borin upp til samþykktar:
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.
Eftirfarandi tillaga lögð fram: Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps samþykkir framlagða fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2023 við seinni umræðu, ásamt þriggja ára áætlun 2024 - 2026 með ofangreindum breytingatillögum og framangreindum álagningarhlutföllum og viðmiðunartölum. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram 24. nóvember sl.
Tillagan er borin upp til samþykktar:
Samþykkt með 4 atkvæðum. Björn Heiðar Sigurbjörnsson, Hafdís Bára Óskarsdóttir og Kristrún Ósk Pálsdóttir sitja hjá.
Til máls tók Björn Heiðar Sigurbjörnsson.
Vopnafjarðarlistinn leggur fram eftirfarandi bókun:
Í kosningastefnu sinni lagði Vopnafjarðarlistinn ríka áherslu á að sveitarfélagið myndaði sér framtíðarsýn – að samfélagið myndi stinga út ákveðna stefnu. Þegar ljóst var að Vopnafjarðarlistinn yrði í minnihluta og Framsóknarflokkurinn ætlaði að hafa tögl og haldir á
stjórn sveitarfélagsins var það samt von Vopnafjarðarlistans að meirihlutinn myndi grípa þessar áherslur á lofti og vinna að einhverju leyti samkvæmt þeim. Svo hefur ekki verið.
Í þeirri fjárhagsáætlun sem nú liggur fyrir sveitarstjórn eru engin merki um framtíðarsýn. Vopnafjarðarlistinn hefur áður gagnrýnt vinnubrögðin við gerð fjárhagsáætlun og ítrekar þá gagnrýni. Drög að áætlun komu of seint fyrir hreppsráð, of seint til hreppsnefndar og aðeins einn vinnufundur var haldinn og það aðeins þremur dögum fyrir seinni umræðu.
Að sjálfsögðu er fjármunum varið í mörg góð og gild verk – og flest þeirra nauðsynleg – en engin áætlun liggur fyrir um hvað gerist næst. Vopnafjarðarlistinn hefur áður óskað eftir stefnuplaggi meirihlutans og einhverjum vegvísi um hvert meirihlutinn stefnir með sveitarfélagið. Hvernig sveitarfélag ætlar Vopnafjarðarhreppur að vera? Engar vísbendingar eru um það í þriggja ára áætlun og metnaður til uppbyggingar virðist ekki til staðar.
Vopnafjarðarhreppur verður að sækja fram ef sveitarfélagið á að vera samkeppnishæft. Það er ekki nóg að sinna bara viðhaldi heldur verður hreppsnefnd að sýna íbúum Vopnafjarðar þá virðingu að stöðnun sé ekki í boði – heldur uppbygging.
Vegna þessa mun Vopnafjarðarlistinn ekki samþykkja fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps 2023.