1. Rekstraraðili#1-rekstraradili
Leikskóli Vopnafjarðarhrepps starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerðum sem um starfsemi leikskóla gilda, öðrum stefnumótandi gögnum og Aðalnámskrá leikskóla. Námskránni er ætlað að vísa ólíkum hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu veginn hvað varðar stefnu og hugmyndafræði leikskólastarfs. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í íslensku skólakerfi og annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.
Í Vopnafjarðarhreppi er einn leikskóli. Leikskólinn Brekkubær notar leikskólakerfið Karellen til að halda utan um starfsemi leikskóla en bæði starfsfólk og foreldrar nota kerfið til samskipta og upplýsinga.
2. Umsókn og innritun#2-umsokn-og-innritun
Sækja má um leikskóla frá fæðingu barns, eða strax og kennitala þess hefur verið skráð. Sótt er um leikskóla á heimasíðu Brekkubæjar hér.
Skilyrði fyrir inngöngu í leikskóla er að barn eigi lögheimili í Vopnafjarðarhreppi. Barnið getur verið á umsóknarlista þótt lögheimili sé annars staðar. Úthlutunin er einnig háð því skilyrði að foreldri sé ekki í vanskilum með leikskólagjöld. Ef um þriggja mánaða vanskil er að ræða er rekstraraðila heimilt að segja upp leikskólasamningi með mánaðar fyrirvara að undangenginni ítrekun.
Víkja má frá meginreglum um inngöngu nemenda í leikskóla ef sérstakar aðstæður krefjast þess og forgang í leikskóla eiga:
- Börn einstæðra foreldra.
- Börn í elsta árgangi leikskóla.
- Börn starfsmanna leikskóla Vopnafjarðarhrepps.
- Börn geta fengið forgang skv. ákvörðun leikskólastjóra og fjölskylduráðs vegna sérþarfa eða félagslegra erfiðleika. Beiðni um forgang þarf að fylgja bréf frá félagsmálastjóra, félagsráðgjafa, viðurkenndum greiningaraðila, lækni eða öðrum eftir því sem við á. Ef foreldri/forráðamaður hefur athugasemdir við niðurstöðu má vísa erindinu til fjölskylduráðs Vopnafjarðarhrepps.
Úthlutað er eftir lausum plássum og aðstæðum hverju sinni í leikskólanum þegar barn hefur náð eins árs aldri. Sækja þarf um leikskólapláss með 5 mánaða fyrirvara.
Í Brekkubæ er leikskólapláss, að jafnaði, í boði fyrir börn sem náð hafa eins árs aldri. Eins árs gömul börn eru aldrei í vistun í meira en 6 klst. á dag fyrsta mánuðinn í Brekkubæ.
Börn eru innrituð í leikskóla eftir aldri þannig að eldri börn ganga fyrir þeim yngri (kennitala ræður).
Þegar barn hefur fengið inngöngu í leikskóla hringir leikskólastjóri í foreldra og sendir síðan tölvupóst u.þ.b. mánuði áður en barnið á að byrja þar sem foreldrar staðfesta leikskólaplássið og dvalartíma barnsins.
3. Leikskólagjöld#3-leikskolagjold
Vopnafjarðarhreppur greiðir að stærstum hluta kostnað við dvöl barna í leikskóla sveitarfélagsins. Leikskólagjöld eru greidd eftir á og gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi 16. hvers mánaðar. Foreldrar greiða leikskólagjöld í hlutfalli við þann tíma sem börn þeirra dvelja í leikskólanum. Einnig greiða foreldrar fyrir fæði barna sinna.
Upplýsingar um gjöld og afslætti er að finna í gjaldskrá leikskólans Brekkubæjar og er hún birt á heimasíðu Vopnafjarðarhrepps. Ef um þriggja mánaða vanskil er að ræða er rekstraraðila heimilt að segja upp leikskólasamningi með mánaðar fyrirvara að undangenginni ítrekun.
Gjaldskráin er tvískipt:
Almennt gjald fyrir hjón og sambúðarfólk.
Forgangsgjald fyrir einstæða foreldra, námsmenn og atvinnulausa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þeir sem óska eftir að greiða fyrir vistun skv. forgangsgjaldi skulu skila staðfestingu á uppfylltum skilyrðum til leikskólastjóra.
Heimilt er að innheimta sérstakt gjald ef foreldrar virða ekki umsaminn leikskólatíma. Þar gildir að mæti foreldrar of snemma með barn eða sæki það of seint oftar en einu sinni í mánuði er innheimt sérstakt gjald í hvert sinn. Reglan er sú að barn með skólatíma 8:00-16:00 komi í leikskólann e. kl. 8:00 og er farið fyrir kl. 16:00.
Til að njóta systkinaafsláttar þurfa börnin að vera skráð á kennitölu sama forráðamanns og með sameiginlegt lögheimili.
Hægt er að óska eftir því við leikskólastjóra að fá fæðiskostnað felldan niður ef nemandi er fjarverandi 10 skóladaga samfellt.
Leikskólinn Brekkubær er lokaður í 5 vikur vegna sumarleyfa. Leikskólagjöld falla niður í sumarlokun leikskólans.
4. Dvalarsamningur#4-dvalarsamningur
Við upphaf leikskólagöngu skrifa foreldrar undir sérstakan dvalarsamning sem meðal annars kveður á um leikskólatíma, reglur og fleira. Dvalarsamningur tekur mið af reglum þessum.
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á leikskólasamningi er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Segja skal upp leikskólasamningi á þar til gerðu eyðublaði sem hægt er að nálgast hjá leikskólastjóra eða deildarstjóra.
Hægt er að sækja um sveigjanlegan vistunartíma (þá er vistun ekki sami tími alla daga) hjá leikskólastjóra. Umsóknir um sveigjanlegan vistunartíma og breytingar á honum þurfa að berast leikskólastjóra fyrir 15. maí sem tekur þá gildi 15. ágúst eða fyrir 15. nóvember sem tekur gildi 1. janúar. Gildir hann þá frá 1. janúar og fram að sumarlokun og svo frá sumaropnun til áramóta.
Óski foreldrar eftir breytingum á leikskólasamningi sækja þeir um það með tveggja vikna fyrirvara fyrir 1. og 15. hvers mánaðar á þar til gerðu eyðublaði sem hægt er að nálgast hjá leikskólastjóra eða deildarstjóra. Athugið að breytingar á sveigjanlegum vistunartíma falla hér undir, einungis er hægt að sækja um breytingar á honum tvisvar á ári á þeim dagsetningum sem sjá má hér að ofan.
5. Opnunartími, starfsmannafundir og starfsdagar #5-opnunartimi-starfsmannafundir-og-starfsdagar
Leikskólinn Brekkubær er opinn frá 07:45-16:15.
Leikskólinn eru lokaðir á aðfangadag og gamlársdag. Gera má ráð fyrir skertri þjónustu á milli hátíða þar sem ekki er um skipulagt leikskólastarf að ræða heldur vistun fyrir þá sem þurfa. Mætingu þarf að skrá fyrir 12. desember vegna skipulags í mötuneyti og hægt er að sækja um niðurfellingu leikskólagjalda ef sótt er um leyfi fyrir barn á milli hátíða.
Leikskólinn Brekkubær er lokaður vegna starfsmannafunda í allt að 12 klst. á hverju skólaári, 2 klst. í senn. Lokanir vegna starfsmannafunda verða tilgreindar í skóladagatali leikskólans.
Starfsdagar leikskólans eru 5 og er leikskólinn lokaður þessa daga. Framkvæmd starfsdaga er alfarið í höndum leikskólastjóra og þeim ráðstafað eftir því hvernig þeir henta og nýtast skólanum sem best. Starfsdagar eru skráðir á skóladagatal leikskólans. Stefnt skal að því að leik- og grunnskóla samræmi þessa daga eins og kostur er.