Jákvæður agi

Í leik­skól­anum Brekkubæ vinnum við eftir jákvæðum aga sem er uppeld­is­stefna sem byggir á sjálfs­stjórn­ar­kenn­ingum.

Sjálfs­stjórn­ar­kenn­ingar fela það í sér að í stað þess að reyna að breyta hegðun barn­anna með umbun og refs­ingu, er mark­miðið að ná til innri hvata barn­anna. Þannig læra börnin að gera það sem er rétt vegna þess að þau langar til þess en ekki vegna þess að þau geri ráð fyrir að fá umbun eða verð­laun fyrir að sýna góða hegðun eða gera eitt­hvað gott. Að sama skapi er það þannig að við beitum ekki refs­ingum þegar börnin sýna óæski­lega hegðun, heldur vinnum að lausn með þeim og hjálpum þeim að læra af mistökum sínum. Þannig verða þau ekki hrædd við að viður­kenna mistök. Við skoðum hvað er á bak við hegð­unina – hvers vegna börnin gera það sem þau gera og vinnum með það.

Jákvæður agi byggir á kenn­ingum Alfred Adler (1870-1937) og Rudolf Dreikurs (1897-1972) sem voru aust­ur­rískir geðlæknar. Upphafs­menn jákvæðs aga eru Jane Nelsen og Lynn Lott en fyrsta bók Nelsen—Positive Discipline eða Jákvæður agi kom út árið 1981. Síðan þá hefur Nelsen ásamt öðrum skrifað fjöldann allan af góðum bókum um jákvæðan aga.

Í jákvæðum aga eru ýmis verk­færi sem við notum í daglegu starfi. Þar má til að mynda nefna barna­fundi, lausna­hjól, jákvæða einveru, vinnu með tilfinn­ingar og að bjóða tvo kosti. Auk þessara verk­færa eru mörg frábær verk­færi í viðbót sem þið eigið eftir að kynnast.

Fimm viðmið jákvæðs aga #fimm-vidmid-jakvaeds-aga

  1. Hjálpar börnum að finna að þau skipta máli, að þau tilheyra og að þau eru mikilvæg.
  2. Sýnir á sama tíma góðvild og festu. Kenn­arar sýna vænt­umþykju og hlýju í verki og á sama tíma gæta þeir þess að meina það sem þeir segja og segja bara það sem þeir geta staðið við.
  3. Ber árangur þegar til lengri tíma er litið. Hefur jákvæð áhrif á hugsun, tilfinn­ingar, nám og ábyrgar ákvarð­anir.
  4. Kennir mikil­væga félags­færni og lífs­leikni; virð­ingu, umhyggju fyrir öðrum, lausnamiðun, samvinnu og þátt­töku í litlu samfé­lagi sem stóru (heimili, skóli, bærinn, borgin).
  5. Hjálpar börnum að uppgötva hversu hæf þau eru, eflir vald þeirra og sjálf­stæði.