Sveit­ar­stjórn

Fundur nr. 45

Kjörtímabilið 2018—2022

10. desember 2020

Félagsheimilinu Miklagarði kl. 14:00
Sara Elísabet Svansdóttir ritaði fundargerð

Í upphafi fundar var leitað afbrigða með því að bæta inn liðnum „Skipun í svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Austurlandi“ undir „Almenn mál“. Samþykkt samhljóða.

1. Fundargerðir#1-fundargerdir

  • Hafn­ar­nefnd 1.12

    ​Lögð fram til kynningar fundargerð hafnarnefndar frá 1.12.20. Sveitarstjórn tekur undir tillögu hafnarnefndar um að útbúa umgengnisreglur fyrir gámaportið. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram með hafnarverði. Samþykkt samhljóða.​

  • Hreppsráð 3.12

    i.      Ályktun veiðifélaga vegna fiskeldis í opnum sjókvíum í Seyðisfirði
    Lögð fram ályktun veiðifélaga vegna fiskeldis í opnum sjókvíum í Seyðisfirði. Sveitastjórn Vopnafjarðarhrepps tekur undir áhyggjur veiðifélaga í Vopnafirði um fjölgun opinna sjókvía. Samþykkt samhljóða. 


    ii.      Sala á félagslegu húsnæði sveitarfélagsins
    Lagt fram minnisblað um félagslegar íbúðir sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkir að setja íbúð sveitarfélagsins við Þverholt 7 á sölu. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram. Samþykkt með fimm atkvæðum meirihlutans. Minnihlutinn situr hjá.

2. Almenn mál#2-almenn-mal

  • Skipun í svæð­is­skipu­lags­nefnd sveit­ar­fé­lag­anna á Aust­ur­landi

    ​Lagt fram erindi frá SSA um skipan í svæðisskipulagsnefnd og staðfesting á starfsreglum því tengdu. Sveitarstjórn tilnefnir Axel Örn Sveinbjörnsson og Söru Elísabetu Svansdóttur sem aðalmenn í svæðisskipulagsnefnd og Teit Helgason og Björn Heiðar Sigurbjörnsson sem varamenn í þeirra stað og gerir engar athugasemdir við starfsreglurnar. Samþykkt samhljóða.​

  • Vernd­ar­svæði í byggð – tillaga að sýningu

    ​Lögð fram til kynningar drög að sýningu fyrir íbúa Vopnafjarðarhrepps í Miklagarði vegna verndarsvæðis í byggð og deiliskipulags miðbæjar. Sveitarstjóra falið að ræða við Yrki um framhaldið. Samþykkt samhljóða.​

  • Umhverf­is­sjóður Vopna­fjarð­ar­hrepps

    ​Lögð fram skipulagsskrá fyrir Umhverfissjóð Vopnafjarðarhrepps sem hefur þann tilgang að verðlauna þann garðeiganda og/eða jarðareiganda í Vopnafirði fyrir best umgengnu og ræktarlegustu lóð og/eða bújörð. Sveitarstjórn tilnefnir Ingólf Daða Jónsson og Sigríði Elvu Konráðsdóttur í stjórn sjóðsins út kjörtímabilið og þriðji stjórnarmeðlimur skal vera ættingi Margrétar. Samþykkt samhljóða.​

  • Úthlutun byggða­kvóta 2020-2021

    ​Lagt fram til kynningar bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um úthlutun byggðakvóta til Vopnafjarðarhrepps 2020-2021. Vopnafjarðarhreppur fær úthlutað 0,79% af heildar þorskígildistonnum eða 38 tonnum á fiskveiðiárinu 2020/2021.​

  • Viðaukar vegna fjár­hags­áætl­unar 2020

    ​Viðaukar 16-17 við fjárhagsáætlun 2020 lagðir fram. Viðauki 16 hefur þau rekstraráhrif að rekstrarniðurstaða A og AB hluta hækkar um 16,8 millj. kr.

    Viðauki 17 hefur þau rekstraráhrif að rekstrarniðurstaða A og AB hluta lækkar um 44,2 millj. kr. Viðauki 16 hefur þau sjóðstreymisáhrif að handbært fé hækkar um 16,8 millj. kr. Viðauki 17 hefur þau sjóðstreymisáhrif að handbært fé hækkar um 12,4 millj. kr. Samþykkt samhljóða.


  • Fjár­hags­áætlun 2021 - seinni umræða
    ​Fjárhagsáætlun ársins 2021 og 2022-2024 lögð fram til seinni umræðu.

    Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2021 í milljónum kr.

    Rekstrarniðurstaða:

    Samstæða A hluta neikvæð um 83 m.kr
    Samstæða A og B hluta  neikvæð um 75 m.kr.

    Fjárfestingar:
    Samstæða A hluta:  93 m.kr 
    Samstæða A og B hluta: 131 m.kr.

    Afborganir langtímalána:

    Samstæða A hluta: 25,5 m.kr.
    Samstæða A og B hluta: 54,1 m.kr.
    Í fjárhagsáætlun 2021 eru áætlaðar heildartekjur 1.151.427.000 kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 6,7 m.kr. Handbært fé í árslok 2021 er 42,6 m.kr.
    Eigið fé er áætlað að nemi 288,9 m.kr. í A hluta og 828,9 m.kr. í samstæðu í árslok 2021. Almennt hækka gjaldskrár í takti við verðlagsbreytingar.

    Fjárfestingar ársins 2021 eru áætlaðar 131 millj.kr.

    Í æskulýðs- og íþróttamálum verða lagðar til 30,7 millj.kr og þar verður farið í endurnýjun á þaki og þakkanti á íþróttahúsi, nýtt gras á fótboltavöll, hönnun á sundlaug og lokafrágangur á lóð við Vallarhús. Í fræðslumál eru lagðar til 27 millj.kr sem fara í endurbætur á þaki í leikskóla, lokafrágang á lóð leikskólans og bættri hljóðvist. Í skólanum verður farið í viðhald í gamla skóla og skólalóðin hönnuð og betrumbætt. Í samgöngum verður farið í að bæta göngustíga og bæta við bekkjum og skipta út ljósum yfir í LED ljós í götulýsingunni.
    Skipt verður út jólaskrauti á staurum og bætt við skrauti í skóla, Sundabúð og ráðhúsi. Í Sundabúð verða settar 12 Millj.kr í múrviðgerðir, málningu, bætta útiaðstöðu og dyrasíma. Einnig verða settar 4 Millj.kr í að endurbæta íbúðir aldraðra og komið í ferli framkvæmd vegna gjafar til Sundabúðar.
    Til fráveitumála eru lagðar til 8 millj.kr við brunn í Skálanesvík til undirbúnings skólpdæluframkvæmdum.
    Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta verður 73,7% í árslok 2021 og skuldahlutfall samstæðu A og B hluta verður 85,4% í árslok 2021.

    Fjárhagsáætlun 2021-2024 í heild sinni verður að öðru leyti aðgengileg á heimasíðu Vopnafjarðarhrepps.

    Eftirfarandi tillaga lögð fram:

    Sveitarstjórn samþykkir framlagða fjárhagsáætlun Vopnafjarðarhrepps fyrir árið 2021 við seinni umræðu, ásamt þriggja ára áætlun 2022 - 2024 og framangreindum álagningarhlutföllum og viðmiðunartölum. Fyrri umræða um fjárhagsáætlunina fór fram 17. nóvember sl. Samþykkt samhljóða.

    ​Bókun minnihlutans:

    Minnihlutinn vill þakka sveitarstjóra og öðru starfsfólki sem kom að þessari vinnu fyrir vel unna fjárhagsáætlun 2021 og einnig þakka meirihlutanum fyrir að við í minnihlutanum höfum fengið að koma okkar sjónarmiðum að á vinnufundum og tillit hefur verið tekið til þeirra. Jafnframt viljum við þakka fyrir greinargóða samantekt um fjárhag sveitarfélagsins. Áður samþykktum fjárhagsáætlunum hefur okkur þótt ástæða til að sitja hjá við afgreiðslu þeirra en í þetta skiptið finnst okkur ástæða til að styðja við fjárhagsáætlun 2021 og greiðum því atkvæði með henni.



Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin og borin upp til samþykktar, hún samhljóða samþykkt og fundi slitið kl. 15:13.